Með tilteknum aðgerðum og breytingum er unnt að auka og efla lyfjafræðilega þjónustu í apótekum, sem myndi stuðla að meiri skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Þetta má m.a. gera með því að veita lyfjafræðingum heimild til að ávísa tilteknum lyfjum og að endurnýja lyf. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði, þar sem birt er stöðumat á lyfjafræðilegri þjónustu apóteka í samanburði við nágrannalönd, lagðar eru til breytingar á starfssviði lyfjafræðinga og settar fram útfærðar tillögur að ýmsum úrbótum.
„Til að nýta betur þá sérþekkingu og hæfni sem lyfjafræðingar í apótekum búa yfir, er nauðsynlegt að veita þeim víðtækari heimildir og stærra hlutverk innan heilbrigðiskerfisins,“ segir í skýrslunni sem birt er í samráðsgátt.
Í umfjöllun um ávísunarréttindi lyfjafræðinga segir að um yrði að ræða leyfi til að ávísa ákveðnum lyfjum fyrir minniháttar heilsufarsvandamál, líkt og gert sé víða annars staðar. Þetta myndi draga úr álagi á læknastofur og bæta aðgengi sjúklinga að meðferð. Eins gætu lyfjafræðingar endurnýjað lyf með takmörkunum fyrir skjólstæðinga til að draga úr líkum á meðferðarrofi, sem myndi valda auknum kostnaði í heilbrigðiskerfinu.
Að mati hópsins er samfélagsleg þörf fyrir aukna lyfjafræðilega þjónustu í ljósi aukinnar lyfjanotkunar og öldrunar þjóðarinnar. Einnig þurfi að breyta greiðslukerfi apóteka til að auka hvata til að veita klíníska þjónustu. „Greiða þarf sérstaklega fyrir einstaka þjónustuþætti sem framkvæmdir eru í apótekum umfram þá lögbundnu ráðgjöf og upplýsingagjöf sem núgildandi lyfjalög kveða á um, líkt og tíðkast annars staðar í heilbrigðiskerfinu, fremur en að leggja eingöngu áherslu á álagningu á lyfjum,“ segir í skýrslunni. Lyfjaþjónusta yrði flokkuð í nauðsynlega og ítarlega þjónustu þar sem ítarlega þjónustan yrði valfrjáls fyrir apótek. Til að auka ábyrgð lyfjafræðinga í heilbrigðiskerfinu þurfi einnig að tryggja endurmenntun á sérhæfðum sviðum.
Lagðar eru til aðgerðir í þremur áföngum til að bæta þjónustu lyfjafræðinga í apótekum sem verði innleiddar á næstu fimm árum. Í fyrsta áfanga verði strax innleiddar í apótekum tilteknar lyfjafræðilegar þjónustur gegn greiðslu, sem dragi úr álagi á heilsugæslu með tilfærslu verkefna frá heilsugæslu til apóteka. Þar á meðal er stuðningur við upphaf lyfjameðferðar og bólusetningar í apótekum. Í öðrum áfanga er svo lýst þjónustu af ýmsum toga sem lagt er til að hefjist innan þriggja ára í apótekum, m.a. að lyfjafræðingum verði veitt heimild til að endurnýja lyfjaávísanir o.fl.
Í þriðja áfanga verði innleidd ýmis þjónusta innan fimm ára í apótekum. Apótek geti orðið fyrsti viðkomustaður fólks með minniháttar veikindi eða heilsufarsvandamál. Þetta myndi létta álag á heilsugæslu og bráðadeildum þar sem sjúklingum með minniháttar vandamál er beint til lyfjafræðinga.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.