„Stríðsgrafaþjónustan heyrði á sínum tíma undir yfirvöld hermála en er núna hluti af menningarverndardeild ráðuneytisins,“ segir Haakon Vinje, yfirmaður Stríðsgrafaþjónustunnar, eða Krigsgravtjenesten, í menningar- og jafnréttisráðuneytinu norska, í samtali við Morgunblaðið sem um þarsíðustu helgi fjallaði um gröf sjómanns á Flateyri sem þar hafði legið í 82 ár án þess að vitað væri hver þar lægi, en lík hans fann áhöfn togarans Ingólfs Arnarsonar ÍS-501 frá Flateyri á floti í sjónum 10. apríl 1942.
Eins og greint var frá í umfjöllun blaðsins um daginn er það nú orðið ljóst að í gröfinni hvílir Sigurd Arvid Nilsen, á sínum tíma 23 ára gömul loftvarnaskytta á norska flutningaskipinu DS Fanefjeld sem þýski kafbáturinn U-252 grandaði með tundurskeyti einum eða tveimur dögum áður en lík hans fannst, er Fanefjeld var á leið frá Bíldudal til Ísafjarðar.
„Í okkar verkahring er tvennt,“ heldur Vinje áfram af Stríðsgrafaþjónustunni, „annað er að fara með umsjón allra stríðsgrafa erlendra manna frá fyrri og síðari heimsstyrjöld sem finnast í Noregi. Í því felst almenn stjórnsýsla, snyrting þeirra og viðhald. Hitt er að bera ábyrgð á gröfum Norðmanna erlendis frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar,“ segir hann.
Í kjölfar styrjaldarloka árið 1945 kveður hann skipulega leit að gröfum Norðmanna, sem týndu lífi sínu í stríðinu, hafa hafist utan Noregs. „Það voru til dæmis grafir hermanna, flugmanna, sjómanna, stríðsfanga og svo framvegis og við fund slíkra grafa fóru fulltrúar á vettvang, framkvæmdu skoðun á jarðneskum leifum og reistu legstein á gröfinni,“ útskýrir Vinje.
Í þessa vinnu hafi norska ríkið lagt mikla fjármuni og vinnu á sjötta áratug aldarinnar sem leið og skráning hafi verið hafin á hinstu hvílum Norðmanna sem létust á erlendri grundu í síðara stríðinu. „Fyrst og fremst var áhersla lögð á grafir norskra hermanna og þar á eftir þeirra sem sigldu á vöruflutningaskipum auk annarra sjófarenda, en þeir sem voru óbreyttir borgarar heyrðu undir norsku siglingamálastofnunina hvað leit að gröfum þeirra áhrærði,“ segir hann og kveður þá verkaskiptingu hafa breyst á sjöunda ártugnum þegar Stríðsgrafaþjónustan tók alfarið við málaflokknum.
„Svo var það núna á síðari tímum, meðan á heimsfaraldrinum stóð, að við gátum sest niður við rannsóknarvinnu á stafrænum skrám yfir grafir, hvort tveggja hérna í Noregi sem erlendis, og farið að skrá áður óþekktar grafir. Þarna var það sem gröf Sigurd Arvid Nilsen kom inn í myndina. Það er mjög sérstakt mál,“ segir ráðuneytismaðurinn og blaðamanni dylst ekki að viðmælandinn hefur brennandi áhuga á þessum sérstaka málaflokki sem óneitanlega er umfangsmikill.
Sé litið til tölfræði norsku hagstofunnar Statistisk Sentralbyrå féllu alls 10.262 Norðmenn í síðari heimsstyrjöldinni, 9.379 karlmenn og 883 konur. Af þessum fjölda fórust um það bil 3.800 sjómenn kaupskipaflotans meðan á stríðinu stóð, en óbreyttir norskir sjómenn fluttu hergögn og vistir, gjarnan í skipalestum á Atlantshafinu sem þýskir kafbátar sátu um eins og ógnargrimmir stálklæddir ránfiskar.
Lætur nærri að 500 norskum skipum hafi verið sökkt í hinni langvinnu rimmu á Atlantshafinu í síðari heimsstyrjöldinni. Áhafnir á venjulegum flutningaskipum, sem engan veginn voru smíðuð til að standast brynklæddum og þungvopnuðum hernaðarsjóförum snúning, sigldu í dauðann og úr varð nánast kynslóð eftirlifenda – sæfarar stríðsins, krigsseilerne, sem töldu norsk stjórnvöld hafa brugðist þeim og svikið þá þegar þeir sneru í land, þjakaðir kvíða, áfallastreitu og oft líkamlegum áverkum. Var tveimur stofnunum komið á fót árin 1951 og 1970 til að vinna því brautargengi að sæförum stríðsins væri bættur skaði þeirra.
En aftur að Haakon Vinje og Stríðsgrafaþjónustunni eftir þennan litla sagnfræðiútúrdúr styrjaldaráranna. Hann segir frá því að líkfundurinn í sjónum við Vestfirði vorið 1942 hafi verið tilkynntur norskum siglingayfirvöldum, stofnun sem þá hét NORTRASHIP, Norwegian Shipping and Trade Mission, en henni var komið á fót árið 1940 til þess að reka mál norska kaupskipaflotans á styrjaldarárunum.
Rataði tilkynningin til Noregs þar sem lík Sigurd Arvid Nilsen fannst í björgunarhring sem af mátti lesa orðhlutann FANEFJ...
„Málið rataði hins vegar aldrei inn í okkar skrár fyrr en líkskoðunarskýrsla héraðslæknis og hreppstjóra á Flateyri kom fram,“ segir Vinje frá og kveðst afar þakklátur Friðþóri Eydal fyrir hans hlut í málinu, en Friðþór, sem ritað hefur mikið um styrjaldarárin á Íslandi, skrifaði grein í Bæjarins besta fyrir fimmtán árum þar sem hann færði rök fyrir því að óþekkti sjómaðurinn á Flateyri gæti verið hinn norski Nilsen.
„Við hyggjumst nú setja okkur í samband við íslensk yfirvöld með aðstoð norska sendiráðsins á Íslandi og beiðast leyfis til að reisa legstein á gröfinni sem við vonum að geti gerst árið 2025,“ segir Haakon Vinje áður en hann lýkur máli sínu með þeim fróðleik að á Íslandi séu alls nítján norskar stríðsgrafir.
„Í Fossvogskirkjugarði eru sautján þeirra og minnismerki sem við unnum viðhaldsvinnu á árið 2022. Ein gröf er í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík. Mér veittist sú ánægja að skoða stríðsgrafirnar í Reykjavík árið 2019.“