Hlupu 26 kílómetra á klukkustund: Enn ófundnir

Hundarnir Luna og Stich hafa verið týndir í þrjá og …
Hundarnir Luna og Stich hafa verið týndir í þrjá og hálfan sólarhring. Ljósmynd/Aðsend

Leit að hundunum Lunu og Stich hefur engan árangur borið og ekkert hefur bæst við þær þrjár ábendingar sem bárust frá fólki sem varð vart við hundana Lunu og Stich á mánudag. Síðast sást til þeirra í Álftafirði eftir að þeir sluppu úr heimahúsi á Djúpavogi.

Hundarnir voru í pössun hjá Ólöfu Rún Stefánsdóttur þegar þeir tóku á rás. Ef miðað er við frásagnir sjónarvotta sem telja sig hafa séð hundana fóru þeir um 26 kílómetra á um einni klukkustund eftir að þeir tóku á rás á mánudagskvöld.

Ólöf Rún Stefánsdóttir.
Ólöf Rún Stefánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Það hefur ekkert spurst til þeirra frá því á mánudag. Við erum búin að leita í allan dag í Álftafirði og sjáum engin ummerki,“ segir Ólöf Rún.

Hún segir að síðast hafi sést til þeirra rétt fyrir myrkur á mánudagskvöld og ef allt væri eðlilegt hefðu þeir snúið til baka eftir að tók að skyggja.

„Gott veður var á mánudag og þriðjudag en hríðarveður á miðvikudag. Við vitum að þeir gætu auðveldlega fundið sér skjól þar sem síðast sást til þeirra. En nú spyrjum við okkur hvað hafi gerst,“ segir Ólöf.

Fólk hafi augun opin 

Hún biðlar til þeirra sem eru á svæðinu að hafa augun opin til að koma þeim sem leita á sporið.

„Þessir hundar eru ólseigir en það er spurning hvort þeir þoli að vera úti í þrjá og hálfan sólarhring. Við ítrekum bara að ef einhver hefur orðið var við þá að láta okkur vita,“ segir Ólöf.

Hún bætir því við að þau hafi fengið mikla hjálp við leitina. „Við erum rosalega þakklát fyrir alla hjálpina,“ segir Ólöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert