Kynsegin fólk líklegra til að upplifa ofbeldi

Gleðigangan í Reykjavík
Gleðigangan í Reykjavík Ljósmynd/Stjórnarráðið

Kynsegin fólk er líklegra til að verða vitni að eða upplifa ofbeldi á heimilum sínum og í nánum samböndum.

Þetta sýna niðurstöður rannsóknar á ofbeldi í nánum samböndum og fjölskyldum hinsegin fólks á Íslandi.

Þar kemur fram að þau sem skilgreindu sig sem trans eða „annað“ voru líklegri til að hafa upplifað ofbeldi en þau sem skilgreindu sig sem sískynja.

Töluverður kynjamunur

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna töluverðan kynjamun á þolendum ofbeldis.

Hlutfall þeirra sem upplifað höfðu mismunandi tegundir ofbeldis var oftar en ekki hæst á meðal kvára og fólks sem skilgreindi sig sem „annað“. Hlutfallið var næsthæst meðal kvenna og lægst meðal karla.

Undantekning á þessu var „andlegt ofbeldi núverandi maka“ en þar voru karlar líklegri en önnur kyn til að merkja við atriði á kvarðanum.

Konur voru þá líklegri en önnur kyn til að hafa upplifað umsátursáreiti fyrrverandi maka.

Þá var kyn gerenda í nær öllum tilfellum karlar, en undantekning frá því var að konur voru í meirihluta gerenda þegar skoðað var andlegt ofbeldi foreldra.

Rannsakendur taka fram að ekki sé um alhæfingargildi að ræða heldur grunnrannsókn sem ætlað er að veita innsýn í stöðu málaflokksins.

Réttindabarátta hinsegin fólks hefur náð miklum árangri hér á landi …
Réttindabarátta hinsegin fólks hefur náð miklum árangri hér á landi en vitundarvakning er enn mikilvæg. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Skortur á úrræðum

Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi en hún var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í samvinnu við Samtökin '78 og Ríkislögreglustjóra.

Gagnaöflun fór fram með spurningakönnunum, önnur var send til félagsfólks Samtakanna '78 og hin var lögð fyrir umræðuhóp á Hinsegin spjallinu.

Þá var unnið upp úr einstaklingsviðtölum við hinsegin fólk og stuðst við fyrirliggjandi gögn úr Íslensku æskulýðsrannsókninni.

Þátttakendur kalla eftir jöfnu aðgengi að aðstoð og úrræðum.

Þeir nefndu til að mynda þörf á sértækri aðstoð vegna ofbeldis fyrir hinsegin fólk, sérstakt athvarf fyrir hinsegin fólk sem hefur mátt þola ofbeldi, að skipuleggja fræðsluátak í forsvari samtakanna '78 og að halda betur utan um tölfræðilegar upplýsingar um ofbeldistilfelli hinsegin fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert