Útlit er fyrir norðvestanhvassviðri á austanverðu landinu á morgun. Þá gera spár ráð fyrir stormi sunnan til á Austfjörðum en mun hægari vindur verður vestan til. Næsta lægð nálgast síðan úr suðvestri.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Gul veðurviðvörun vegna vinds tekur gildi á Austfjörðum kl. 10 í fyrramálið. Él verða á Norður- og Austurlandi, en annars léttskýjað.
Síðasta lægð gekk yfir fyrr í vikunni með tilheyrandi rigningu og hvassviðri.
„Næsta lægð nálgast síðan úr suðvestri og fer að þykkna upp vestan til á föstudagskvöld, en lægir þá jafnframt og rofar til fyrir austan. Á laugardag er búist við stífri suðvestanátt með slyddu og síðar rigningu og hlýnandi veðri, en þurrt að mestu norðaustanlands,“ segir enn fremur í hugleiðingum.