Vegna fjölda hálkuslysa í síðustu viku, sem leiddu til margskonar beinbrota, varð að grípa til þess ráðs á Landspítalanum að opna auka skurðstofu ásamt dagdeild, síðastliðinn sunnudag. Sama verður uppi á teningnum næsta sunnudag.
Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Landspítalanum við fyrirspurn mbl.is.
Í venjulegu árferði er unnið á tveimur skurðstofum á Landspítalanum í Fossvogi um helgar, en þessa tvo sunnudaga mun starfsfólk og stjórnendur koma inn á vaktir á þriðju skurðstofunni í frítíma sínum. Ásamt því að manna vaktir á dagdeild. Er það gert til þess að tryggja að sjúklingar fái viðeigandi meðferð í tæka tíð.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, sagði við mbl.is á föstudaginn í síðustu viku að 62 einstaklingar hefðu leitað á bráðamóttökuna frá mánudeginum.
Í flestum tilfellum hefði verið um minniháttar áverka að ræða en einnig hefði verið nokkuð um beinbrot og höfuðhögg.