Dómsmálaráðuneytið hefur samþykkt erindi fjölskyldu Lúðvíks Péturssonar sem lést þegar hann féll ofan í sprungu í Grindavík 10. janúar, um að fram fari rannsókn óháðra aðila á atvikinu.
Fjölskyldunni barst bréf þess efnis síðla í nóvember. Þar kemur fram að samþykkt hafi verið að rýna í aðgerðir eða aðgerðarleysi á svæðinu í aðdraganda andlátsins. Þar kemur fram að settur verði á fót starfshópur til að gera athugun á atvikinu.
Elías Pétursson, bróðir Lúðvíks, segir fjölskylduna ánægða með niðurstöðuna.
„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og teljum að ef vel er gert þá gæti þetta orðið til mikils gagns,“ segir Elías.
Þegar hefur farið fram rannsókn Vinnueftirlitsins á atvikinu og gaf hún út skýrslu þar sem gerð var athugasemd við öryggisatriði er leiddu til andlátsins. Þá stendur nú yfir lögreglurannsókn þar sem nokkrum er komu að ákvarðanatöku hefur verið tilkynnt um að fleiri en einn hafi réttarstöðu sakbornings.
Elías segir hugmyndina með þessari rýni ekki vera þá að leita sökudólga.
„Það sem liggur fyrir er að það þarf að fara yfir ákvarðanir kerfisins. Ákvarðanir almannavarna og slíkra hluta. Almannavarnir eru með ríkar heimildir þegar kemur að svona ástandi eins og var á þessu hættusvæði. Það þarf að rýna í þær til að læra af þeim. Ekki til að leita sökudólga heldur að læra af þeim ákvörðunum sem voru teknar þannig að næst þegar menn lenda í stórum atburðum getum við verið betur undirbúin og tekið betri ákvarðanir,“ segir Elías.
Hann á von á því að þeir sem tóku ákvarðanir á hættusvæðinu fagni því að ákvarðanir þeirra verði rýndar.
„Þetta er allt fólk sem fær greitt fyrir að taka ákvarðanir og þar af leiðandi hlýtur það sjálft að fagna því að ákvarðanir þeirra verði rýndar og hvort eitthvað hefði betur mátt fara. Það hljóta allir að sýna því skilning,“ segir Elías.
Hann segir að samskipti við ráðamenn hafa verið mjög vinsamleg allan tímann. Hann hafi verið í óformlegum samskiptum við ráðuneyti, embættismenn og m.a. Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra.
„Eftir að við sendum formlegt bréf get ég sagt að ráðherra og ráðuneytið hafi staðið sig mjög vel og við erum ánægð með móttökurnar og niðurstöðuna,“ segir Elías.
„Við erum fyrst og fremst að reyna að gera það að verkum að þetta ömurlega og að því er virðist tilgangslausa dauðsfall verði til einhvers góðs,“ segir Elías.