Refsing felld niður gegn fyrrverandi lögreglumanni

Málið hefur tekið langan tíma, en upphaflega var hann sakfelldur …
Málið hefur tekið langan tíma, en upphaflega var hann sakfelldur í héraði árið 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur fellt niður refsingu sem fyrrverandi lögreglumanni hafði verið gerð í bæði héraði og Landsrétti árin 2017 og 2018. Ekki var sannað að ákveðnir áverkar á brotaþola væru lögreglumanninum að kenna og þá fór málsmeðferðin gegn ákvæðum stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.

Þetta kemur fram í dómi Landsréttar.

Sig­urður Árni Reyn­is­son var ákærður og sak­felld­ur í héraði árið 2017 fyr­ir að hafa farið offorsi í starfi sínu þegar hann átti að flytja fanga fyr­ir dóm í maí 2016.

Var fyrst dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi

Var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og þar að auki gert að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur.

Lands­rétt­ur mildaði dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur árið 2018 og gerði Sig­urði að sæta 30 daga skil­orðsbundnu fang­elsi.

Sigurður óskaði eftir endurupptöku málsins fyrir Landsrétti og með úrskurði endurupptökudóms í september árið 2022 var fallist á beiðni hans.

Viðurkennir að hann fór offorsi í starfi

Sigurði var gert að sök að hafa ýtt fanganum upp að vegg, skellt honum í gólfið, rekið hné í bringu hans og hótað að kýla hann.

Sigurður játaði sök að því undanskildu að hann neitaði að hafa skellt höfði brotaþola í gólf í fangageymslu og að hafa skellt honum upp við vegg. Þá mótmælti hann því að áverkar brotaþola væru af hans völdum.

Við hina enduruppteknu málsmeðferð komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að Sigurður hefði veitt brotaþola þá áverka á ökkla sem lýst væri í ákæru og að ekki kæmi til álita að sakfella Sigurð fyrir að hafa valdið áverka á rifbeini.

„Þá kemur ekki til álita að sakfella ákærða fyrir að hafa valdið áverka á rifbeini brotaþola, enda felur lýsing á áverkanum í ákæru það í sér að hann hafi ekki verið staðreyndur,“ segir í dómi Landsréttar en í ákærunni var aðeins talað um að „grunur“ væri um „rifbrot“.

Að öðru leyti yrði Sigurður sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greindi og þar réttilega heimfærð til refsiákvæða. 

Reyndi að tryggja varðveislu sönnunargagna

„Við ákvörðun refsingar var litið til þess að [Sigurður] upplýsti yfirmann sinn um háttsemi sína daginn eftir, skrifaði skýrslu um atvikið, leitaðist við að tryggja varðveislu sönnunargagna og hafði greitt [brotaþola] miskabætur sem dæmdar voru í héraði. Þá var einnig litið til þess mikla dráttar sem hafði orðið á málsmeðferð sem [Sigurði] yrði ekki kennt um og hafði málsmeðferðin því farið gegn ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Var [Sigurði] því ekki gerð refsing,“ segir í dómi Landsréttar.

mbl.is greindi frá því árið 2018 maður­inn sem Sig­urður var dæmd­ur fyr­ir að brjóta á skrifaði yf­ir­lýs­ingu vegna fyrirtöku máls Sig­urðar í Lands­rétti.

Þar biður hann um að Sig­urði verði ekki gerð refs­ing, enda hafi þeir ná sátt­um sín á milli. Yf­ir­lýs­ing­in var einnig send yf­ir­stjórn lög­regl­unn­ar, en þar kveðst brotaþoli aldrei hafa viljað að Sig­urður hlyti at­vinnum­issi vegna brots­ins.

Brotaþoli hafði degi áður en atvikið átti sér stað lent í slagsmálum þar sem hann hlaut ýmsa áverka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert