Þingflokksfundir þeirra flokka sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum fóru fram klukkan 12:20 þar sem farið var yfir stöðuna í viðræðunum.
Tveir fulltrúar frá hverjum flokki hafa setið í svokölluðum starfshóp þar sem unnið er að tillögum sem svo eru kynntar fyrir formönnum.
Starfshóparnir sinna sex málefnum: húsnæðis- og kjaramálum, dóms- og utanríkismálum, heilbrigðismálum, atvinnu- og samgöngumálum og menntamálum.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, situr í starfshópi húsnæðis- og kjaramála og segir að hópurinn hafi verið að skila af sér tillögum sem fari til formanna flokkanna þriggja og nýtast við smíði stjórnarsáttmála.
„Þetta eru tveir fulltrúar frá hverjum flokki í starfshópunum sem setjast niður og reyna að finna sameiginlega fleti og koma sér saman um einhver svona gróf stefnumið,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is
Búið er að upplýsa að það gangi vel í viðræðum flokkanna en Jóhann segist aðspurður ekki geta upplýst um hvaða málefni séu að taka lengri tíma í að leysa efnislega séð.
„Þegar kemur að þessum stóru álitamálum þá er það meira á formönnunum að leysa úr þeim.“
Hann segir þó nýja afkomuspá ríkissjóðs setji svip sinn á ferlið.
„Nú er auðvitað staðan þessi að það er komin ný afkomuspá frá fjármálaráðuneytinu sem gerir ráð fyrir í raun viðstöðulausum halla á rekstri ríkisins út áratuginn og þetta setur auðvitað ákveðinn svip á stjórnarmyndunarumræðurnar.
En það er hins vegar algjör samhljómur um það hjá þessum þremur flokkum að gera ekkert sem raskar efnahagslegum stöðugleika. Það er algjör samhljómur um það að sýna meiri festu í ríkisfjármálunum og í raun að það þurfi að sýna meiri festu í ríkisfjármálum til þess að tryggja að vextir lækki hratt og örugglega næstu mánuði. Þetta er svona algjört grunnstef í öllum okkar umræðum.“
Hann segir erfitt að segja til um hvort búið sé að afgreiða einhver mál alveg og að það sé formannanna hlutverk að svara því
„En þetta er svona ákveðin grunnvinna sem á sér stað inni í hópunum til þess að leggja efnivið á borðið í rauninni áður en ritaður verður stjórnarsáttmáli.“
Þá segist hann mjög bjartsýnn fyrir samstarfinu, verði af því.
„Mér finnst þetta mjög spennandi tilhugsun að þessir þrír flokkar vinni saman og myndi ríkisstjórn. Þetta eru flokkar sem voru sammála um það í kosningabaráttunni að það þyrfti að ná hratt niður vöxtum með ábyrgri efnahagsstefnu og fjármálastefnu.
En líka sammála um að það þyrfti að skapa svigrúm í ríkisfjármálunum til þess að geta tekið betur utan um viðkvæma hópa, til þess að geta eflt heilbrigðiskerfið okkar m.a. geðheilbrigðisþjónustuna. Að börn með fjölþættan vanda og fólk með fíknisjúkdóma sitji ekki eftir, bara svo ég nefni örfá dæmi um áskoranirnar sem blasa við.“
Þá nefnir Jóhann að nú þurfi að endurheimta efnahagslegan stöðugleika í landinu og koma festu á ríkisfjármálin, en stóra verkefnið sé svo að auka verðmætasköpun í landinu og styrkja velferðina.
Þá segir hann að þó að flokkarnir séu ólíkir þá eigi þeir margt sameiginlegt og að það séu mörg brýn verkefni í samfélaginu sem hann telji að flokkarnir gætu unnið vel saman að.
„Ég held líka að það séu allar forsendur til þess að allir þrír flokkarnir geti blómstrað hver um sig í þessu samstarfi.“
Um næstu skref segir hann framhaldið velta á ákvörðunum formanna en tekur hann ferlið í tiltölulega föstum farvegi.
„Og eftir að þessir hópar skila af sér þá finnst mér ekki ósennilegt að það verði hafist handa við að byrja að skrifa stjórnarsáttmála.“
Fréttin hefur verið uppfærð