Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir að fregnir af pólitísku andláti hans séu stórlega ýktar í kjölfar skrifa á Mannlífi um að hann væri á leiðinni í starf sem ráðgjafi hjá FAO, matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, skrifaði ritstjórnargrein undir flokknum „orðrómur“ þar sem hann segir Sigurð Inga vera í slæmum málum eftir nýafstaðnar þingkosningar og hann sé nú „búinn að tryggja sér feitt starf sem ráðgjafi hjá FAO“.
Sigurður Ingi svaraði þessum skrifum á Facebook þar sem hann hafnar því alfarið að hann sé á leiðinni til Rómar til starfa hjá FAO.
„Ég get sagt eins og Mark Twain að „fréttir af (pólitísku) andláti mínu og útför (brottför) eru stórlega ýktar“.“
Enn fremur segir hann að eina sem hann hafi hugsað sér á nýju ári er að ganga aftur í Karlakór Hreppamanna og fara hringinn í kringum landið að hitta Framsóknarmenn til að byggja upp flokkinn á ný.
„Hitt er svo meira undrunarefni hver setur svona þvælu á flug og af hverju,“ skrifar hann að lokum.