Þingflokkarnir funda hver í sínu lagi í dag

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eyþór

Þingflokkar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins munu funda hver í sínu lagi í hádeginu í dag og verður þá staðan í stjórnarmyndunarviðræðunum kynnt fyrir þingmönnum.

Sex vinnuhópar með mismunandi málefnasvið halda einnig áfram með sína vinnu í dag, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í gær að hugsanlega myndu hóparnar ljúka störfum á morgun, föstudag.

Meðal mál­efna­sviða vinnu­hóp­anna eru rík­is­sjóður, hús­næðismál­in, heil­brigðismál­in, mennta­mál og gervi­greind. Ekki hefur verið gefið upp hverjir skipa hvaða hóp.

Níu manna viðræðuhópur hittist í dag

Þá mun hópurinn sem kemur að stjórnarmyndunarviðræðunum væntanlega hittast og funda seinni partinn í dag. Um er að ræða níu manna hóp sem fyrir utan formenn flokkanna, er skipaður varaformönnum og aðstoðarmönnum.

Þorgerður sagði í viðtali við mbl.is að hún teldi ástæðu til að ætla að ný ríkisstjórn yrði mynduð fyrir áramót, en Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafa einnig talað á þeim nótum.

Sagði Þorgerður að góður gangur væri í viðræðunum en að nýjustu tölur frá fjármálaráðuneytinu, um verri afkomu ríkissjóðs, hefðu tafið þær eitthvað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert