Umboðsmaður Alþingis hefur ákveðið að taka til skoðunar hvort rétt sé að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig aðgangi almennings að starfsmönnum og þjónustu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar er háttað.
Þetta kemur fram í bréfi Kristínar Benediktsdóttur umboðsmanns Alþingis til borgarinnar vegna samskipta í tilefni af kvörtun ónefnds aðila til umboðsmanns yfir því að því að meira en tveggja ára gömul beiðni hans um gögn og upplýsingar frá Reykjavíkurborg hafði ekki verið afgreidd.
Reykjavíkurborg hefur nú afgreitt beiðnina en umboðsmaður hefur sent borginni bréf og minnt á ákvæði stjórnsýslulaga og gerir athugasemdir við borgina fyrir að vera sein til svars og minnir á reglur um málshraða. Bent er á að samkvæmt stjórnsýslulögum skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er og þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla tefjist beri að skýra viðkomandi frá því, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
„Umboðsmaður brýnir fyrir Reykjavíkurborg að gæta að reglum um málshraða eftir að það tók meira en tvö ár að afgreiða beiðni einstaklings um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá umhverfis- og skipulagssviði.
Þá gekk umboðsmanni erfiðlega að fá svör við spurningum sínum vegna málsins. Meðal annars þar sem ekki var hægt að ná í starfsfólk sviðsins í síma og ítrekað þurfti að ganga eftir skýrari svörum í tölvupóstum,“ segir í frétt um málið á vef umboðsmanns.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag