Verri afkoma tefur viðræður

Þorgerður Katrín segir að viðræðurnar hafi gengið vel í gær.
Þorgerður Katrín segir að viðræðurnar hafi gengið vel í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að það sé góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Hún segir að stærsti málaflokkurinn sé efnahagsmálin og að ný afkomuspá ríkissjóðs – um að halli á ríkissjóð verði meiri á næsta ári en upphaflega var áætlað – hafi að vissu leyti tafið viðræðurnar.

Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025- 2029 í apríl.

„Auðvitað hjálpuðu ekki þessar nýjustu tölur frá fjármálaráðuneytinu varðandi afkomuna. Þær gera verkefnið snúnara og má segja að það hafi aðeins tafið okkur. En það er bara áskorun og verkefni sem við tökum af festu og ábyrgð og hæfilegri bjartsýni,“ segir Þorgerður í samtali við Morgunblaðið.

Kallar á frekari samtöl

Þorgerður segir að hér sé um að ræða 30-50 milljarða auka halla umfram það sem upphaflega var áætlað, en þegar fjárlagafrumvarp var lagt fram átti halli ríkissjóðs að vera 41 milljarður á næsta ári. Kallar þetta á niðurskurð eða hærri skatta?

„Þetta kallar á frekari samtöl meðal annars. Það er alveg ljóst við í Viðreisn höfum verið að nálgast þetta út frá ákveðnu sjónarhorni, aðhaldi í ríkisfjármálum. Við höfum sagt að skattahækkanir séu ekki lausnin,“ segir hún.

Þorgerður gefur lítið upp um það hvernig möguleg ríkisstjórn þessara flokka myndi bæta stöðu ríkissjóðs en hún segir að það sé skýrt af hálfu flokkanna að styðja við Seðlabankann.

„Það er algjör samhljómur hjá okkur að gera það sem í okkar valdi stendur til að styðja við Seðlabankann þannig að hann geti haldið áfram að lækka vexti og um leið hjálpa til við að lækka verðbólgu,“ segir Þorgerður.

Telur að ríkisstjórn verði mynduð fyrir áramót

Hún segir að það sé áherslumunur hjá flokkunum í heilbrigðismálum, menntamálum og ákveðnum greinum í atvinnulífinu. Aftur á móti sé algjör samhljómur um að taka betur utan um lögregluna.

Hún segir að viðræðurnar hafi gengið vel í gær og miðað við stöðuna undir lok dags megi ætla að ríkisstjórn verði mynduð fyrir áramót.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert