Heimili í Vík og Mýrdal eru nú tengd inn á rafmagn frá dreifikerfi RARIK eftir að hafa verið á varaafli frá því á mánudag eftir að bilun kom upp í jarðstreng RARIK. Olli bilunin rafmagnsleysi, en síðar tókst að koma á varaafli, en kerfið var þá viðkvæmt og truflanir komu upp.
RARIK boðar varanlegt varaafl á svæðinu á komandi vikum, en bendir á að stofnanir og fyrirtæki sem geti ekki án rafmagns verið þurfi að koma upp eigin varaafli.
Bilunin kom upp eftir mikið vatnaveður og leysingar þar sem Skógá flæddi yfir bakka sína. Er strengurinn plægður undir ána. Til að laga þetta boraði verktakafyrirtæki ný göng undir árfarveginn og lagði þar rör og lagði RARIK streng þar um og kláraði samsetningu. Þá var einnig 11kV dreifistrengur settur í rörin, en hann verður settur saman seint í kvöld. Skipuleggja þarf straumleysi frá Hrútafelli að Eystri Skógum meðan sú aðgerð á sér stað.
Viðgerð á streng við Ytri-Sólheima lauk einnig í gær, en spennistöð RARIK á svæðinu lenti þar í miklum vatnsflaumi.
Straumi var hleypt á Víkurstreng klukkan 19:15 í gær, en klukkustund síðar var álag flutt á strenginn og varaafl keyrt niður. Eru heimili og fyrirtæki í Vík og Mýrdal því komin nú á rafmagn frá strengnum frekar en varaafl.
Í tilkynningu frá RARIK kemur fram að allt kapp verði nú lagt á að setja upp varanlegt varaafl í Vík, en það verkefni mun taka einhverjar vikur til viðbótar. Hafði sveitarstjórinn í Vík áður gagnrýnt að sem hann sagði stórkostlegt skeytingarleysi af hálfu RARIK og Landsnets varðandi að koma upp varaaflsstöðvum í bænum. Auk þess að heimili og fyrirtæki hafi orðið rafmagnslaus þá hafi heilu hótelin orðið vatnslaus þar sem þau fá vatn úr borholum sem ganga fyrir rafmagni. Þá hafi einnig fjarskiptasendar dottið út vegna rafmagnsleysis.
Samtals eiga varaaflsvélar RARIK í Vík að geta framleitt 2,7 MW og ef með er talin tenging um 19kV streng frá Klaustri er þar tiltækt varaafl upp á 3,7 MW. Með þessu ætti varaafl á Vík að geta annað meðalaflþörf svæðisins yfir vetrartímann en hún var 3,4 MW veturinn 2023-2024, að því er RARIK segir.
Er meðal annars farið í þessa aðgerð þar sem hringtengingu skorti á svæðinu og þá vantar þar aukna orku. „RARIK tekur áskorun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps hvað þetta varðar alvarlega og er tilbúið að taka þátt í samvinnu og samtali við sveitarstjórn, Landsnet og stjórnvöld um úrbætur í þessum efnum. Aflþörf svæðisins hefur aukist verulega undanfarin ár og núverandi aflgeta á svæðinu mun ekki geta annað orkuskiptum á þessu svæði til frambúðar,“ segir í tilkynningu RARIK.
Þá bendir RARIK á að þau fyrirtæki og stofnanir sem telja sig ekki geta verið án rafmangs, jafnvel í stutta stund, meðal annars hjúkrunarheimili og fjarskiptafyrirtæki, þurfi að koma sér upp eigin varaafli. Engin dreifiveita geti tryggt 100% örugga afhendingu öllum stundum.