Vitni sá til hundanna í Álftafirði

Luna og Stich eru veiðihundar og þegar hefur verið leitað …
Luna og Stich eru veiðihundar og þegar hefur verið leitað gaumgæfilega að þeim í nærumhverfi Djúpavogs. Ljósmynd/Aðsend

„Áreiðanlegt“ vitni sá til hundanna Lunu og Stich í Álftafirði nærri bænum Geithellar  sem er um 20 kílómetra frá Djúpavogi á mánudagskvöld. Í ljósi þessara upplýsinga hefur leitarsvæði færst suður fyrir Djúpavog.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jóhanna Reykjalín, íbúi á Djúpavogi, setti á Facebooks-síðu sína í gær en hundanna hefur einmitt verið leitað frá því á mánudaginn 9. desember.

Hún biður alla sem eru á ferð á svæðinu á milli Hafnar og Djúpavogs að horfa mjög vel í kringum sig.

Gætu leitað skjóls í útihúsum 

„Þeir virðast fylgja veginum að einhverju leyti eftir að dimmir en eins gætu þeir leitað skjóls í útihúsum,“ segir á í færslunni.  

Hundarnir hafa verið týndir frá því um miðjan dag á mánudag en samfélagið á Djúpavogi hefur tekið höndum saman í viðleitni sinni til þess að finna hundana.

Luna og Stich eru veiðihundar og eigandi þeirra Ólöf Rún Stefánsdóttir, sagði í samtali við mbl.is í gær að hátt í 20 manns hefðu leitað hundanna auk þess sem björgunarsveitir hefðu lagt hönd á plóg.

Hún biður fólk á Austfjörðum að hafa samband við sig í síma 868-1643, skyldi það rekast á hundana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert