Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að það sé fráleitt að fráfarandi ríkisstjórn sé að skilja eftir sig verra bú en upphaflega var talið eins og formaður Samfylkingarinnar hafi látið eftir sér, en hún vísaði í tilkynningu fjármálaráðuneytisins í vikunni um lakari tekjuhorfur.
Ráðuneytið greindi frá því á þriðjudag að heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 væri nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Það væri lakari afkoma en áætlað hefði verið við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að fráfarandi ríkisstjórn væri að skilja eftir sig verra bú en upphaflega hefði verið talið.
„Ríkisstjórnin fyrrverandi er að skilja eftir sig verra bú, meðal annars vegna þess að efnahagsumsvif eru minni en áður var við búist. Tekjur til ríkisins eru minni og þetta er auðvitað mjög erfitt mál því þarna þarf að forgangsraða. Þarna þarf að ræða bæði tekjuhlið og útgjaldahlið,“ sagði Kristrún.
„Nei, það er auðvitað fráleitt. En vissulega var ekki búið að reikna upp þessi fimm ár. En þetta voru engin ný tíðindi, þau birtust við afgreiðslu fjárlaga [15. nóvember],“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
„Þegar að ný þjóðhagsspá kemur, sem að reiknar upp að á næsta ári verði tekjur um 20 milljörðum lægri, vegna þess að hagvöxturinn í ár verði núll, en verður hann það? Það er stóra spurningin. Ellefu ársfjórðunga í röð hefur honum verið vanspáð og stundum oftar en einu sinni leiðréttur upp á við, þannig að við skulum nú bara sjá. Það getur skipt talsvert miklu máli ef að tekjur næsta árs, hvað þá þegar þú reiknar síðan fimm ár fram í tímann, hvað þær geta hækkað,“ segir fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi bendir jafnframt á, að ný ríkisstjórn þurfi að takast á við það sem að þingið hafi breytt, sem hafi verið óvenju lítið, og geri það að verkum að aðhald ríkisfjármálanna sé jafn mikið eins og fjárlögin þegar þau voru lögð fram. Og styðji þar með við lækkun verðbólgu og vaxta.
„Eðlilega þarf þá ný ríkisstjórn að takast á við þær áskoranir. Og þær eru smávægilegar,“ segir Sigurður Ingi.
„Ný ríkisstjórn þarf auðvitað að taka ákvarðanir um þessar áskoranir sem koma upp þegar að við erum að fara úr miklu hagvaxtarskeiði. Ná mjúku lendingunni sem allir eru að sækjast eftir, sem að er það að viðhalda verðmætissköpuninni, viðhalda atvinnuástandinu, en engu að síður ná þenslunni úr samfélaginu. Og það er okkur að takast og það er kraftaverk,“ bætir hann við.
Spurður hvernig honum lítist á nýja ríkisstjórn segir Sigurður Ingi að þetta hafi verið ákall kosninganna að hans mati.
„Þannig að væntingar um að þessir flokkar, sem að lofuðu ýmsu, um að laga allt sem úrskeiðis hefði farið, fá þá tækifæri til þess. Og ég hlakka bara til að veita þeirri stjórn eðlilega stjórnarandstöðu, aðhald, gagnrýni, uppbyggilega, lausnamiðaða og hlakka bara til þess.“