Forsvarsmenn félagsins Álfabakka 2 ehf., sem hefur staðið í framkvæmdum við uppbyggingu vöruhúss við Álfabakka 2 í Reykjavík, segja að framkvæmdin hafi verið í einu og öllu í samræmi við gildandi deiliskipulag og þær heimildir sem skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi gefið út.
Félagið segir þetta í tilkynningu sem er send út í ljósi umræðna í fjölmiðlum undanfarna daga er varðar byggingu vöruhúss sem er byggt alveg við fjölbýlishús í Árskógum 7, sem hefur verið harðlega gagnrýnt af íbúum.
„Fulltrúar félagsins unnu náið að undirbúningi framkvæmdanna með þartilbærum yfirvöldum borgarinnar og þess gætt í einu og öllu að farið væri eftir tilmælum og vilja borgaryfirvalda. Allar teikningar hafa þannig verið staðfestar af hálfu borgarinnar. Í þessu samhengi er einnig ástæða til þess að benda á að fyrra deiliskipulag gerði ráð fyrir allt að 17.000 fm byggingarmagni ofan jarðar á þeim lóðum sem nú eru Álfabakki 2,“ segir í tilkynningu félagsins.
„Félagið hefur samkvæmt gildandi lóðarúthlutun heimild til þess að reisa allt að 15.000 fm byggingu ofan jarðar á lóðinni. Félagið óskaði sérstaklega eftir því að breyting yrði gerð á deiliskipulagi þannig að heimilað byggingarmagn yrði fært niður í 11.500 fm sem jafngildir stærð þess mannvirkis sem nú er svo til risið á lóðinni. Ekki var fallist á þá beiðni af hálfu borgaryfirvalda. Greiðslur félagsins fyrir byggingarréttinn tóku þannig mið af 15.000 fm byggingu ofan jarðar þó svo að hún sé um 3.500 fm minni en það,“ segir enn fremur.
Þá er tekið fram að þær breytingar á deiliskipulagi sem framkvæmdir við Álfabakka 2 byggi á hafi farið af hálfu Reykjavíkurborgar í lögboðið auglýsingar- og kynningarferli.
„Það skal jafnframt sérstaklega áréttað að leigutaki Álfabakka 2, Hagar ehf, ber enga ábyrgð á byggingarframkvæmdinni né heldur er leigutaki eigandi byggingarinnar.
Fulltrúar félagsins vinna nú hörðum höndum að því að ganga frá uppbyggingu að Álfabakka 2 með það að leiðarljósi að húsnæðið og lóð þess verði öllum til sóma,“ segir að lokum.