Lögmaður netverslunar sem selur áfengi telur ljóst að netverslun með áfengi verði ekki stöðvuð.
Hann telur tvískinnung ríkja í málinu sökum þess að „allt verði vitlaust“ þegar Íslendingar opna erlenda netverslun með áfengi en á sama tíma hafi menn pantað áfengi erlendis frá árum saman.
Athygli vakti þegar lögregla fór í aðgerðir á annan í jólum til að loka afhendingarstöðum netverslana með áfengi. Fóru aðgerðirnar fram á grunni laga um helgidagafrið. Ein þeirra netverslana sem aðgerðir lögreglu náðu til var Nýja vínbúðin.
Eigandi verslunarinnar, Sverrir Einar Eiríksson, mótmælti og leitaði til Sveins Andra Sveinssonar lögmanns sem ræddi við lögreglu.
„Lögregla ætlaði að loka. Eigandinn mótmælti því. Þá hótaði lögregla að innsigla verslunina en því var mótmælt og þá varð ekkert meira úr því. Verslunin var því hvorki innsigluð né stöðvuð,“ segir Sveinn Andri.
Netverslanir með áfengi starfa á grunni EES-löggjafar og eru hýstar erlendis. Hins vegar hefur sá háttur verið hafður á að afhendingarstaðir eru víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.
„Lögreglan talaði um að það væri óheimilt að selja áfengi á helgum dögum. Þá var þeim bent á að þetta væri ekki sala. Þá sögðu þeir að það væri bannað að afhenda áfengi á helgidögum en ég hef bent á ákveðinn ómöguleika hvað það varðar. Ætlar þú þá að loka öllum pósthólfum sem eru sjálfopnanleg á þessum helgidögum því það er möguleiki á því að áfengi sé í einni sendingunni,“ segir Sveinn Andri.
Hann segir að málið í heild sinni kristalli þá tímaskekkju sem fyrirkomulag áfengissölu er. „Menn hafa verið að kaupa einhver vín í gegnum erlenda netverslun árum saman og fengið það sent heim til sín. Ekkert að því. En svo á að gera allt vitlaust þegar Íslendingar ætla að opna erlenda heimasíðu með áfengi. Menn hljóta að sjá það í hendi sér að það er ekki hægt að stoppa þetta,“ segir Sveinn Andri.
Þrjú mál er viðkoma netverslunum eru til rannsóknar hjá lögreglu. Snúa þau að netversluninni Sante, Smáríkinu og Afengi.is sem er ekki lengur starfandi. Rannsókn á málunum er lokið og það er hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tekur ákvörðun um næstu skref í málinu og þá hvort ákært verði.