Hjólabúðir sem selja rafmagnsreiðhjól eru nú í hálfgjörðu limbói þar sem fyrri ríkisstjórn hafði tilkynnt að nýtt styrkjakerfi vegna kaupa á rafmagnsreiðhjólum tæki við af öðru kerfi sem verið hefur undanfarin ár og byggist á virðisaukaskattsívilnun. Ekkert nýtt styrkjakerfi liggur hins vegar fyrir og miðað við svör sem borist hafa frá stofnun sem á að sjá um nýja kerfið gæti það orðið erfitt í framkvæmd.
Á meðan halda kaupendur að sér höndum, enda þá með öllu óljóst hvort þeir geti sótt um styrkinn sem gert hafði verið ráð fyrir. Slíkt býr til mikla óvissu fyrir reiðhjólaverslanir og ólíðandi er þegar reglurnar eru ekki skýrar. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, en félagið hefur verið í sambandi við tvö ráðuneyti og Orkusjóð vegna málsins fyrir hönd reiðhjólaverslana.
Líkt og mbl.is fjallaði um í síðasta mánuði varð breyting á ívilnunarkerfi vegna kaupa á vistvænum farartækjum um áramótin. Hafði umhverfis- orku- og loftlagsráðherra ákveðið að falla frá fyrra kerfi þar sem ívilnunin kom í gegnum virðisaukaskattskerfið fyrir reiðhjól og rafmagnsreiðhjól.
Þess í stað var ákveðið að falla alveg frá ívilnun fyrir hefðbundin reiðhjól, jafnvel þótt þau séu líklega enn vistvænni en rafmagnshjól, og ákveðið að færa ívilnunina nú í gegnum Orkusjóð og þá aðeins fyrir rafmagnshjól.
Í umfjöllun mbl.is var rætt við sölustjóra hjá Erninum sem benti á að þrátt fyrir að nýja kerfið ætti að taka gildi eftir tvær vikur hefðu reiðhjólaverslanir ekkert heyrt um nýja fyrirkomulagið.
Ólafur segir að Félag atvinnurekenda hafi undanfarið verið í sambandi við Orkusjóð, umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið vegna málsins og reynt að fá einhvern botn í það.
Segir hann að Orkusjóður hafi svarað því að ekkert erindi eða leiðbeiningar hafi borist frá umhverfisráðuneytinu um hvernig fyrirkomulagið ætti að vera. Frá ráðuneytinu bárust hins vegar þau svör að það hefði tveimur dögum fyrir stjórnarskiptin, sem voru 21. desember, sent beiðni til Orkusjóðs um að skila inn tillögum um hvernig best væri að haga nýja kerfinu.
Ólafur segir að slíkar tillögur hafi ekki enn litið dagsins ljós og þar af leiðandi hafi ekki verið staðið við það sem sett var fram í fjárlögunum um að reglugerð um nýja kerfið myndi liggja fyrir fyrir áramót. Segir hann jafnframt að frá Orkusjóði komi þau skilaboð að útfærsla á nýju kerfi geti reynst mjög flókin.
Vísar Ólafur til þess að nú þegar sé styrkjakerfið í gangi fyrir bifreiðar. Í því tilfelli eigi sér hins vegar stað samkeyrsla við ökutækjaskrá, en bílar eru skráð ökutæki meðan rafmagnshjól eru það ekki. Vegna þessa telji Orkusjóður að nýja styrkjakerfið geti reynst flókið í framkvæmd þegar komi að rafmagnshjólum, þar sem ekki sé hægt að vinna með sömu sjálfvirkni og sé í kringum rafmagnsbíla.
Ólafur gefur afgreiðslu fyrri ríkisstjórn ekki háa einkunn þegar kemur að þessu máli. „Við teljum að þetta hafi ekki verið hugsað til enda,“ segir Ólafur. Jafnframt segir hann að afgreiðsla þingsins og meðferð málsins og fjárlaganna fyrir þingnefndum hafi greinilega verið ábótavant þar sem ekki hafi verið hugsað út í hvernig kerfið hafi átt að vera uppbyggt.
„Það er afleitt að leggja af kerfi þegar nýtt er ekki til,“ segir hann. Aðalatriðið sé að reglurnar um ívilnanir séu skýrar og að fyrirtæki og neytendur viti að hverju þau gangi. Eins og staðan sé núna er það ekki raunin.
Spurður um hvaða lausn sé í sjónmáli segir hann enga töfralausn liggja fyrir. Hann tekur reyndar fram að það sé líklega nærtækara að reyna að úfæra þessa styrkjaleið, en að mikill tími hafi farið til spillis og að nú styttist í vorið þegar mesti sölutími reiðhjólaverslana sé.