Húsnæði Listasafns Íslands er óviðunandi og of lítið til að safnið geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart öðrum söfnum eða sinnt forystuhlutverki sínu hvað varðar varðveislu, rannsóknir og miðlun samkvæmt safnalögum. Ráðherra menningarmála ætlar að fela Framkvæmdasýslu ríkisins – ríkiseignum að skoða hvort best væri að stækka núverandi húsnæði, byggja nýtt eða nýta og aðlaga aðrar byggingar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en starfshópur um stöðu Listasafns Íslands skilaði í desember skýrslu um stöðu safnsins.
Listasafn Íslands er til húsa við Fríkirkjuveg og er eitt af þremur höfuðsöfnum landsins og er svið safnsins myndlist. Hlutverk safnsins samkvæmt lögum er meðal annars að safna íslenskri myndlist, vera miðstöð varðveislu, rannsókna, heimildasöfnunar og miðlunar á íslenskri myndlist.
Listasafn Íslands skal leitast við að koma upp metnaðarfullu safni íslenskrar myndlistar, skrá það, rannsaka, varðveita og miðla, innan lands og utan.
Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að núverandi húsnæðisaðstaða safnsins hefti getu og framþróun safnsins til að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu og að það geti ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart öðrum söfnum.
Segir þar að brýnasta hlutverkið sé að koma á varðveisluhúsnæði sem uppfylli innlendar og erlendar kröfur um slíkt húsnæði. Eru vinnuaðstæður í mörgum varðveislurýmum sagðar óviðunandi og ekki öruggar starfsfólki né verkum. Er vísað til þess að í slíku rými skuli öryggi verka tryggt með öflugum eldvarnarkerfum, meindýravörnum, stýringu á raka og hita o.fl.
Sýningarrými safnsins er einnig talið of lítið til að uppfylla skyldur safnsins við að byggja upp öflugt innra starf með getu til að sinna rannsóknarstarfi. Er það sagt grundvallaratriði svo setja megi íslenska myndlist í samhengi við alþjóðlega strauma og kynna íslenska myndlist erlendis. Þá er tekið fram að frá árinu 1987, þegar safnið fluttist á Fríkirkjuveg, hafi safnkostur þess margfaldast.
Að lokum er tekið fyrir mikilvægi þess að auka getu safnsins til innkaupa, en fram kemur að safnið sé ekki talið hafa burði til að safna íslenskri listsögu eins og staðan er í dag.
Leggja skýrsluhöfundar til að kannaðir séu þrír möguleikar til bregðast við húsnæðisvanda safnsins:
Logi Már Einarsson, ráðherra menningar-, nýsköpunar og háskólamála, ætlar að láta vinna frekari greiningu á þessum möguleikum og næstu skrefum.
„Það er með öllu óviðunandi að við getum ekki tryggt varðveislu myndlistararfs þjóðarinnar eða boðið upp á fasta sýningu á listasögu Íslands vegna plássleysis. Næstu skref eru að ráðuneytið mun fela FSRE að vinna greiningu á þeim möguleika sem talinn er vænlegastur og hann kannaður til hlítar með tilheyrandi áætlanagerð. Það er til lítils að fjárfesta í listsköpun ef ekki er hægt að varðveita hana eða sýna með sómasamlegum hætti líkt og Myndlistarstefna leggur upp með,“ er haft eftir Loga í tilkynningunni.