Lét soninn horfa á meðan hann braut gegn móður hans

Sigurjón Ólafsson hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi.
Sigurjón Ólafsson hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi. mbl.is/Karítas

Sigurjón Ólafsson hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Brotin áttu sér stað á árunum 2016-2020 og voru gegn andlega fötluðum mæðginum og annarri konu sem einnig glímdi við andlega fötlun.

Greint var frá málinu í júní á síðasta ári þegar ákæra var gefin út á hendur Sigurjóni.

Ákærður fyrir hrottafengin brot

Sigurjón var þá ákærður fyr­ir að hafa nokkr­um sinn­um í hverj­um mánuði á ár­un­um 2016 til 2020 haft sam­ræði og önn­ur kyn­ferðismök við kon­una og látið aðra menn hafa kyn­ferðismök við hana.

Einnig var hann ákærður fyrir kyn­ferðis­brot á ár­inu 2019 eða 2020 með því að hafa látið son kon­unn­ar vera viðstadd­an þegar hann lét kon­una hafa við sig sam­ræði og munn­mök. Gerði hann það undir því yf­ir­skini að son­ur­inn ætti að læra að stunda kyn­líf og nýtti hann sér þar að son­ur­inn gat ekki spornað við verknaðinum sök­um and­legr­ar fötl­un­ar.

Sigurjón var einnig ákærður fyr­ir að hafa áreitt son­inn kyn­ferðis­lega með því að spyrja hann ít­rekað um kyn­líf og gefið hon­um leiðbein­ing­ar um hvernig ætti að stunda kyn­líf, en um­mæl­in voru sögð til þess fall­in að særa blygðun­ar­semi son­ar­ins.

Þá var Sigurjón einnig ákærður fyrir að brjóta gegn syn­in­um og ann­arri konu með því að hafa gengið inn í lokað her­bergi þar sem þau stunduðu kyn­líf. Var hann sagður hafa fært hönd sína mjög ná­lægt kyn­fær­um kon­unn­ar og gefið syn­in­um leiðbein­ing­ar um hvernig hann ætti að veita munn­mök. Er sú kona jafn­framt með and­lega fötl­un sem Sigurjón er sagður hafa not­fært sér.

Sagði sambandið leynilegt kynferðislegt vináttusamband

Sigurjón neitaði sök í málinu og sagði samband sitt við móðurina hafa verið leynilegt kynferðislegt vináttusamband sem hófst árið 2016 en þá var hann yfirmaður konunnar í verslun sem þau störfuðu í.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú birt dóminn í heild en dómurinn féll í gær.

Lét soninn horfa á móðurina veita sér munnmök 

Segir þar að lögfull sönnun þyki hafa tekist fyrir því að Sigurjón hafi að jafnaði nokkrum sinnum í mánuði á tímabilinu frá hausti 2016 fram í desember 2020 brotið kynferðislega gegn móðurinni og nýtt sér að hún gæti ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar. Þá þykir einnig sannað að hann hafi látið aðra menn hafa kynferðismök við hana. 

Einnig þykir sannað að Sigurjón hafi að minnsta kosti einu sinni látið móðurina hafa við sig munnmök þar sem sonur hennar var látinn horfa á undir því yfirskini að hann ætti að læra að stunda kynlíf.

Ekki sannað að hann hafi áreitt soninn kynferðislega

Það þykir þó ósannað að sonurinn hafi í umrætt skipti horft á Sigurjón hafa samræði við móðurina en lagður var þar til grundvallar framburður móðurinnar um að sá hluti kynferðismakanna hafi átt sér stað eftir að sonurinn var kominn inn í herbergið.

Ekki þótti lögfull sönnun fyrir því að Sigurjón hefði áreitt soninn kynferðislega með því að spyrja hann ítrekað um kynlíf og gefið honum leiðbeiningar um hvernig ætti að stunda kynlíf og var hann því sýknaður af þeirri ákæru.

Ekkert gilt samþykki fyrir hendi

Að lokum þykir sannað að Sigurjón hafi brotið gegn syninum og andlega fatlaðri kærustu hans þegar hann gekk inn í lokað herbergi þar sem þau stunduðu kynlíf og fært hönd sína nálægt kynfærum konunnar og viðhaft kynferðislegar leiðbeiningar.

Segir í dómnum að ljóst sé út frá öllum málsatvikum að ekkert gilt samþykki var fyrir hendi, auk þess sem sonurinn var barn að lögum á þeim tíma og mátti Sigurjóni vera það ljóst.

Ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna

Eins og fyrr segir er Sigurjóni gert að sæta átta ára fangelsi og segir í dómnum að vegna alvöru brotanna sé ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna.

Horfir það Sigurjóni til málsbóta að hann hefur aldrei áður gerst brotlegur við refsilög samkvæmt sakavottorði hans. Einnig mildaði það refsidóm hans að langur tími var liðinn frá brotunum og ráðið var af málsgögnum að óútskýrðar tafir hefðu orðið á lögreglurannsókn, einkum frá hausti 2022 til vors 2023.

Sigurjóni er gert að greiða móðurinni fimm milljónir króna í miskabætur auk vaxta.

Honum er gert að greiða syninum 1,2 milljónir króna í miskabætur auk vaxta.

Þá er honum gert að greiða kærustu sonarins 500.000 krónur í miskabætur auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert