„Sjaldan orðlaus en ég er það í þessu tilfelli“

Anna Lára Steindal framkvæmdastjóri samtakanna.
Anna Lára Steindal framkvæmdastjóri samtakanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Þroskahjálpar telur að ástæðu þess að ekki séu fleiri sakfellingar í ofbeldismálum, þar sem fatlað fólk verður fyrir ofbeldinu, megi rekja til þess að dómskerfið taki ekki mið af þörfum fatlaðra.

Anna Lára Steindal framkvæmdastjóri samtakanna segist orðlaus yfir því að fimm karlmenn sem sagðir eru hafa haft samræði við fatlaða konu hafi ekki verið ákærðir eins og Sigurjón Ólafsson verslunarstjóri, sem dæmdur var í átta ára fangelsi fyrir að nauðga fatlaðri konu ítrekað á fjögurra ára tímabili frá 2016-2020.

Sigurjón er sagður hafa boðið öðrum mönnum að eiga samræði við konuna.

Fram kom í umfjöllun ríkisútvarpsins um málið frá því fyrr í kvöld að embætti héraðssaksóknara hefði metið málin sem svo að ólíklegt hefði verið að ákæra hefði leitt til sakfellingar.

Rannsóknaraðferðir mæti illa þörfum fatlaðra 

„Ég verð sjaldan orðlaus en ég er það í þessu tilfelli. Þetta veldur okkur miklum vonbrigðum. Þegar fatlaðar konur eiga í hlut, þá eru svo miklar brotalamir í kerfinu og rannsóknaraðferðirnar mæta svo illa þörfum þessa hóps,“ segir Anna Lára.

Áttu þá við að spurningar lögreglu til að reyna að átta sig á hvað sé rétt í málinu beri keim af því að talað sé við manneskju sem ekki er þroskahömluð?

„Já, ég hef sjálf verið í samskiptum við ríkislögreglustjóra um að finna betri leiðir í þessum málum. Ég veit að verið er að reyna að leggja sig fram um það. Rannsóknir sýna að fatlað fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi, en fatlað fólk er að sama skapi ólíklegra til að segja frá og líður frekar eins og þeim sé ekki trúað,“ segir Anna.

„Þá er ólíklegra að slík mál leiði til ákæru og enn ólíklegra að þau leiði til sakfellingar. Þá sýna rannsóknir að dómstólar og rétturinn þurfi að laga sig að þörfum fatlaðs fólks svo það fái réttláta málsmeðferð.

Fleiri sambærileg dæmi 

Anna segir að það sé síður en svo einsdæmi að menn notfæri sér stöðu fatlaðra kvenna í kynferðislegum tilgangi. Telur hún þörf á vitundarvakningu.

„Þetta mál gekk á í fjögur ár. Það hlýtur einhver að hafa orðið einhvers var. Því miður eru fleiri dæmi um að konur hafi orðið fyrir slíku ofbeldi í mörg ár án þess að nokkur hafi gert neitt,“ segir hún.

„Það er fullt af sögum um slíkt. Því miður heyrir maður um allt, allt of mörg af svona málum. Innlendar og erlendar rannsóknir styðja þetta líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert