Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, íhugar formannsframboð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en hún segir framboð til varaformanns eða ritara ekki koma til greina.
Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum í hádeginu að breyta ekki dagsetningu landsfundar flokksins. Fer hann því fram dagana 28. febrúar - 2. mars.
Þórdís segir aðspurð að það komi til greina að hún bjóði sig fram í formannsembættið en að það verði að fá að koma í ljós hvenær hún tilkynnir ákvörðun sína.
Kemur til greina að þú bjóðir þig fram í annað embætti í forystunni, varaformann eða ritara?
„Nei,“ svarar Þórdís.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti 6. janúar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.
Nú er ljóst að fundurinn verður haldinn í lok febrúar og má því segja að kapphlaupið um það hver verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins sé hafið.