Einn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna vinnuslyss í Ólafsvík síðdegis í gær.
Slysið átti sér stað í áhaldahúsi bæjarins en þar hafði lyftara verið ekið á vegg innandyra. Ökumaður lyftarans var fluttur með þyrlunni á Landspítalann.
Að sögn Kristjáns Inga Hjörvarssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi, var ástand mannsins stöðugt þegar hann var fluttur með þyrlunni. Hann segir að ekki sé ljóst á þessu stigi hvort um slys eða veikindi hafi verið að ræða.
Hann segir að vinnueftirlitið hafi verið ræst út og vettvangur rannsakaður af lögreglu og vinnueftirliti.