Fá frestun á brottför og Emma fer í aðgerðina

Emma fær að fara í aðgerðina hér á landi.
Emma fær að fara í aðgerðina hér á landi. Ljósmynd/Aðsend

Emma Alessandra Reyes Portillo, þriggja ára hælisleitandi frá Venesúela, og foreldrar hennar hafa fengið frestun á sjálfviljugri brottför héðan frá landi en til stóð að vísa þeim úr landi á morgun, þremur vikum áður en Emma á að fara í nauðsynlega mjaðmaraðgerð.

Þetta staðfestir Jón Sigurðsson, lögmaður stúlkunnar. 

Frestunin kemur í ljósi nýr læknisvottorðs, sem mbl.is hefur undir höndum, sem lögmaður Emmu sendi inn til Útlendingastofnunar þar sem ítrekað er mikilvægi aðgerðarinnar fyrir heilsufar Emmu.

Vísar læknirinn til þess að með því að vísa henni úr landi sé verið að fara gegn heilsufarslegum hagsmunum hennar.

„Það er afar mikilvægt að hlutirnir séu gerðir á réttan hátt í réttri röð og henni sé fylgt vel eftir og þ.a.l. tel ég það fara alvarlega gegn hennar heilsufarslegu hagsmunum að henni sé vísað úr landi á þessari stundu,“ segir meðal annars í læknisvottorðinu. 

Fengu endanlega synjun í gær

Emma glímir við mjaðmalos og gekkst undir aðgerð vegna þess í febrúar á síðasta ári. Þann 10. febrúar er síðari aðgerð vegna mjaðmalossins fyrirhuguð þar sem á að fjarlægja plötu úr lærlegg hennar úr fyrri aðgerðinni. 

Fjölskyldunni barst í gær endanleg synjun frá kærunefnd útlendingamála um að fresta sjálfviljugri brottför þar til aðgerðin væri yfirstaðin, en í ljósi nýs læknisvottorðs sem var lagt fram til útlendingastofnunar í dag fær Emma og foreldrar hennar að dvelja hér á landi að minnsta kosti fram yfir fyrirhugaða aðgerð 10. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert