Kona sem æfir hjá World Class er verulega ósátt eftir að karlmaður gekk inn í kvennaklefa líkamsræktarinnar í Laugum í morgun til að gera við klósettrúlluhaldara.
Í nafnlausri færslu á Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu segir hún fleiri konur hafa verið í klefanum þegar maðurinn gekk inn, þar á meðal nokkrar í sturtu, og að aðeins hluti þeirra hafi heyrt í kvenkyns starfsmanni sem labbaði inn á undan og tilkynnti komu mannsins.
Björn Leifsson, eigandi World Class, segir konuna fara með rangt mál. Hún hafi verið eini iðkandinn í klefanum þegar maðurinn, sem sé bróðir hans og meðeigandi líkamsræktarstöðvarinnar, hafi gengið inn.
Björn segir kvenkyns starfsmann World Class jafnframt hafa farið inn og kallað hátt og skilmerkilega að karlkyns viðgerðarmaður væri á leiðinni inn. Þá myndi maðurinn aldrei ganga inn einhverjum að óvörum.
Þá segir Björn fleiri þætti í nafnlausu færslunni ekki standast skoðun.
Hefði verið réttara að sinna þessari viðgerð utan opnunartíma til að koma í veg fyrir svona atvik?
„Það var nú enginn drepinn en þetta er tveggja til þriggja mínútna verk og yfirleitt gert þegar á þarf að halda til að allir geti fengið svona þjónustu.“
En þetta var ekki nauðsynleg viðgerð?
„Nei örugglega ekki, ekki frekar en að mála eða annað.“