Hætta er á að færð geti spillst víða um land í dag en Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir víða um landið fram til morguns.
Í tilkynningu frá veðurfræðingi Veðurstofunnar segir að Suðaustanlands, einkum austan Öræfa og á Austurlandi er spáð versnandi veðri með hríð og blindu og fljótlega almennri ófærð eystra og eftir hádegi einnig á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.
„Vegfarendur frá Akureyri á leið suður hafi í huga að á Öxnadalsheiði getur veður versnað hratt um miðjan daginn og eins verður vaxandi skafrenningur á Holtavörðuheiði,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, kemur fram að óvissustig er á Hringvegi milli Skóga og Víkur í Mýrdal, sem og í Öræfasveit, milli Skaftafells og Hnappavalla, og gæti veginum verið lokað með stuttum fyrirvara.
Þar segir einnig að búist sé við að færð spillist þegar líður á daginn á vegum á Suðausturlandi, Austfjörðum og á Norðausturlandi.