Mál manns sem ók yfir Ibrahim tekið fyrir í gær

Drengurinn Ibrahim Shah lést á Ásvöllum í lok október 2023 …
Drengurinn Ibrahim Shah lést á Ásvöllum í lok október 2023 eftir að hafa orðið undir steypubíl. Ljósmynd/Eva

Mál gegn manni á sjötugsaldri sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi, með því að hafa ekið steypubíl á Ibrahim Shah, átta ára dreng, við Ásvelli í Hafnarfirði í október árið 2023, var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Maðurinn ók á Ibrahim þegar hann tók hægri beygju á gatnamótum í átt að vinnusvæði á Ásvöllum.

Fyrr í mánuðinum var birt skýrsla Rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem meðal annars kom fram að maðurinn hafi sagt að sennilega hafi hann ekki gefið stefnuljós þegar hann beygði steypubílnum og slysið varð. Þá var niðurstaða skýrslunnar að drengurinn hafi verið sýnilegur í 20 sekúndur í hliðarspegli áður en hann hvarf sjónarsviði ökumanns í 2-3 sekúndur.

Í aðalmeðferð málsins í héraði í gær staðfesti maðurinn að hann hefði ekki séð drenginn, samkvæmt umfjöllun Vísis um málið. Þar er jafnframt haft eftir honum úr dómsal að hann hafi talið sig sýna nægilega aðgát, en að hann hafi ekki vitað um göngustíginn þar sem Ibrahim var að hjóla. Við áreksturinn lést Ibrahim samstundis.

Fyrir dómi var vísað í að atvikið hefði verið sviðsett til að sjá betur m.a. hvort að ökumaðurinn hafi notað stefnuljós, en slíkt sást ekki á öryggismyndavél eftir atvikið. Við sviðsetningu sást hins vegar þegar stefnuljós var notað og sagði ökumaðurinn að líklega þýddi það að hann hefði ekki notað stefnuljósið.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var einnig bent á að ekki hafi verið hugað nægjanlega vel að afmörkunum og ráðstöfunum gagnvart óvörðum vegfarendum, en ráðist var í frekari aðgerðir tengt því í kjölfar slyssins á vinnustaðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert