Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir því við starfshóp um minningardag um helförina að koma með tillögur að því hvernig rétt sé að minnast helfararinnar 27. janúar hvert ár á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Starfshópurinn var skipaður í janúar árið 2023.
Í dag er alþjóðlegur minningardagur um helförina og er þess minnst víða um heim að 80 ár séu liðin frá frelsun gyðinga úr fangabúðunum í Auschwitz.
Segir í tilkynningunni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sé nú viðstödd minningarathöfnina í Auschwitz fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Þar er minnst þeirra sex milljóna gyðinga sem var útrýmt í helförinni og annarra fórnarlamba sem urðu fyrir grimmilegum ofsóknum nasista.
„Við megum ekki gleyma helförinni og því að hún gat átt sér stað. Þetta á ekki síst við á tímum þar sem vaxandi sundurlyndis og skautunar gætir víða um heim í stjórnmálum og umræðu. Grimmdin sem bjó þarna að baki er illskiljanleg og tilhugsunin óhugnanleg,“ er haft eftir Kristrúnu Frostadóttur.
„Flest nágrannaríki okkar minnast helfararinnar þann 27. janúar ár hvert og það viljum líka gera á Íslandi. Það er mikilvægt að við höldum áfram að læra af sögunni, uppfræða börnin okkar og vera á varðbergi gagnvart fordómum og hatursorðræðu.“
Þá segir einnig í tilkynningunni að Kristrún hafi í dag fundað með rabbína gyðinga á Íslandi, Avraham Feldman, og eiginkonu hans, Mushky Feldman, í tilefni dagsins en þau sinna saman samfélagi gyðinga á Íslandi.
Var á fundinum rætt um samfélag gyðinga á Íslandi, sögu þeirra hérlendis, hatursorðræðu í garð minnihlutahópa og um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs.