Mesta ógnin við fjölmiðlafrelsi eru valdhafar er grafa undan trúverðugleika fjölmiðla þegar þeir tala niður til blaðamanna, saka þá um að óheiðarlegar hvatir liggi að baki spurninga, snúa út úr orðum eða neita að svara. Þá er jafnvel ýtt undir vantraust með ásökunum um skort á hlutlægni eða heiðarleika þegar fjölmiðlar spyrja erfiðra spurninga.
Þetta er meðal þess sem Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, skrifar í aðsendri grein sinni á Vísi.
„Blaðamenn vinna í þágu almennings sem á rétt á að fá sannar upplýsingar settar fram á sanngjarnan og heiðarlegan hátt,“ segir hún.
„Það þarf að minna valdamenn á í umboði hvers þeir starfa. Oft virðast þeir gleyma því að þeir starfa í þágu sama hóps og blaðamenn: almennings. Og blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari.“
Sigríður segir viðbrögð valdafólks við eðlilegum og nauðsynlegum spurningum blaðamanna vera fullt tilefni til að vekja athygli almennings á hlutverki og mikilvægi fjölmiðla og blaðamanna í lýðræðissamfélagi.
Þá nefnir hún dæmi um skaðlega og ómálefnalega gagnrýni valdamanna á blaðamenn, til að mynda að Bjarni Benediktsson hafi gert lítið úr blaðamanni í Kryddsíldinni en hann kallaði fréttaflutning um landsfund „blaðamannablaður.“ Þá sakaði þingmaður Sjálfstæðisflokksins blaðamenn um siðlausar árásir á fjölskyldu sína eftir afhjúpun er tengdist hans störfum.
Nýlegasta dæmið snýr þó að ummælum Ingu Sæland, ráðherra félags- og húsnæðismála, vegna umfjöllunar um styrki til stjórnmálaflokka og símtal við skólastjóra Borgarholtsskóla.
„Óvandaðir falsfréttamiðlar í eigu auðmanna og ákveðinna stjórnmálaafla koma fram við fólk eins og fífl,” skrifaði Inga í facebook færslu sinni.
Óljóst er til hvers Inga vísar í færslunni en viðtal var tekið við hana í Útvarpi Sögu og hlaðvarpi Eyjunnar, daginn eftir birtingu færslunnar, þar sem hún tengdi ummæli sín við Morgunblaðið.
Umfjöllun Morgunblaðsins um að Flokkur fólksins hafi fengið styrkveitingar frá ríkinu í trássi við lög leiddi af sér miklar umræður um flokkinn. Um er að ræða 240 milljónir króna sem Inga Sæland kveðst ekki ætla að skila til baka.
Í grein sinni bendir Sigríður á að blaðamennska eigi að vera óþægileg fyrir fólk, stofnanir og fyrirtæki í valdastöðu. Hlutverk hennar sé að afhjúpa mistök, bresti og spillingu.
Sigríður segir að leitt sé að sjá íslenska stjórnmálamenn snúast gegn fjölmiðlum sem sinna heiðarlegu starfi og veita almenningi mikilvægar upplýsingar um störf, ákvarðanir og háttsemi valdhafa.
Í greininni kemur einnig fram að Ísland hafi hrapað niður lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi landa, það sé meðal annars vegna þess að „sjálfstæði íslenskra fjölmiðla stafi ógn af viðhorfi stjórnmálamanna til fjölmiðla og ummælum þeirra.“
Þá er rétt að taka fram að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og Ingileif Friðriksdóttir, aðstoðarkona Þorgerðar, voru meðal þeirra sem like-uðu færslu Ingu.
Hér fyrir neðan má sjá facebook færslu Ingu í heild sinni.