Slagsmál brutust út á þorrablóti Njarðvíkur í gærkvöldi, að sögn sjónarvotta.
Í samtali við mbl.is segir Hámundur Örn Helgason, framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Njarðvík, miður að atvik hafi orðið sem leiddi til þess að gæslan á ballinu taldi sig þurfa að loka ballinu á meðan lögreglan leysti málin.
Að sögn Hámundar kom ekki til þess að gestum væri vísað út af staðnum en ljósin voru kveikt og hljómsveit tók pásu, á meðan lögreglan leysti málið.
„Ballið kláraðist svo með friðsælum hætti og langflestir fóru heim af þessu glæsilega þorrablóti með bros á vör,“ segir hann.
Var þorrablótið það stærsta í sögu félagsins og sótt af um 600 gestum.