Þorgerður Katrín: Tollastríð gagnast engum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór Árnason

Sagan sýnir okkur að tollastríð gagnast engum, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is, um tollahækkanir Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta.

Ekkert bendir til þess að tollahækkanir Trumps muni beinast sérstaklega að Íslandi í náinni framtíð að sögn Þorgerðar en utanríkisráðherrar EFTA ríkjanna sammælist þó um að þörf sé á miklum samskiptum við Evrópusambandið, ef til þess kemur að ESB þurfi að svara í sömu mynt.

Tollastríð gagnist engum

„Stóra myndin er auðvitað sú að tollastríð gagnast engum. Við sjáum það í gegnum söguna. Ég hef verið að benda á með stóru kreppuna 1929, þegar Bandaríkin byrjuðu að stórhækka tolla og aðrar þjóðir svöruðu í sömu mynt, allir hagfræðingar eru sammála því að það hafi bara dýpkað kreppuna og verið mjög skaðlegar aðgerðir fyrir öll hagkerfi heimsins.“

Hún segir það sérstaklega viðkvæmt fyrir Íslendinga ef komi til tollastríðs og að við megum ekki lenda í skotlínunni á milli Bandaríkjanna og Evrópu ef að til þess kemur.

Eftir að Trump tilkynnti 25% toll á vörur frá Kanada og Mexíkó og 10% toll á vörur frá Kína, hafa Kanada og Mexíkó svarað í sömu mynt.

Bendir Þorgerður á að fyrir útflutningsland eins og Ísland, sem byggir allt sitt á því að það séu opnir, frjálsir markaðir og aðgangi að mörkuðum án hindrana, þá skipti miklu máli að Ísland verði ekki fórnarlamb tollastríðs „á milli okkar mestu og bestu vinaþjóða, hvort sem það eru Bandaríkin eða ríki Evrópu.“

Ekki víst að tollahækkanir beinist að Íslandi

Þorgerður segir vöruskiptajöfnuðinn vera Bandaríkjunum í hag en „fyrst og síðast“ sé þetta mikilvægur markaður fyrir íslenska útflytjendur en 10% af vöruútflutningi Íslands fari til Bandaríkjanna.

„Þetta skiptir okkur mjög miklu máli en ég vil líka undirstrika það að það er ekkert víst að hugsanlegar tollahækkanir Trumps muni sérstaklega beinast að íslenskum útflutningsafurðum, eða bara yfirhöfuð Íslandi,“ bætir hún við.

Því verði Ísland að nálgast mögulega óvissutíma af yfirvegun en um leið vinna að hagsmunum Íslands, sem þýði að þörf er á góðu samstarfi áfram við útflutningsfyrirtækin og atvinnulífið, „um leið og við tölum okkar máli á erlendri grundu.“

Hún segir utanríkisráðuneytið hafa unnið í nokkurn tíma að kortlagningu að útflutningshagsmunum Íslands til Bandaríkjanna. Löndin hafi lengi verið miklar vinaþjóðir og verði það áfram. Traust samstarf hafi verið hvað varðar pólitík, efnahag og varnar- og öryggismál.

Háð samskiptum við aðrar þjóðir

Þorgerður segir öll kerfi háð samskiptum við aðrar þjóðir, hvort sem um ræðir útflutningsdrifin kerfi eins og Ísland eða alþjóðakerfi, þau séu háð því að greið aðkoma sé að hráefni og innflutningi á vörum.

Þá segir hún gott samband vera á milli sín og utanríkisráðherra hinna EFTA ríkjanna, Noregs og Liechtenstein, sem hafa aðgang að innri markaðinum. Utanríkisráðherrarnir hafi sammælst um að þörf sé á miklum samskiptum við Evrópusambandið „þannig að þau taki okkur inn í „lúppuna“ ef þau munu hugsanlega þurfa að svara í sömu mynt.“

„Ég hef tekið þetta upp á öllum þeim fundum sem ég hef verið á með framkvæmdastjórninni og þau sýna þessu skilning, það er ekkert fast í hendi, en þau sýna þessu skilning.“

Þá bendir Þorgerður á að Ísland hafi áður staðið frammi fyrir því að vörur héðan yrðu hugsanlega fyrir miklum tollum af hálfu Evrópusambandsins. Þegar ákveðið tollastríð hafi verið á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, þá hafi Ísland getað sannfært Evrópusambandið um að sjá samhengi hlutanna.

Hún segir EES samninginn hjálpa Íslandi gríðarlega. Innri markaðurinn sé ekki bara 27 ríki heldur 30.

„En við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki aðilar að viðskiptahindrunum, tollamálum og svo framvegis hjá ESB ríkjunum. Þá skiptir miklu máli að við séum í þessu góða sambandi ef að til hugsanlegra gagnaðgerða ríkja eða ríkissambanda á borð við EES kemur, ef að Trump beinir sjónum að því sviði. Þannig að þetta eru áhugaverðir tímar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert