Samninganefndir Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa verið að funda í Karphúsinu frá klukkan tíu í morgun.
„Við höfum verið að kanna hvort það sé hægt að ná þessu saman. Það er vinna sem stendur enn þá yfir en er bara mjög þung og erfið,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Ástráður lagði fram innanhússtillögu í kjaradeilu kennara á fimmtudag. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillöguna á föstudag, en kennarar féllust ekki á hana í þeirri mynd sem Ástráður lagði hana fram. Þeir gera kröfu um breytingar á ákveðnum skilmálum.
Náist samningar ekki í dag hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný á mánudag. Þá leggja kennarar í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum niður störf. Félag framhaldsskólakennara hefur einnig gefið út að greidd verði atkvæði um verkföll í nokkrum framhaldsskólum strax eftir helgi.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að samningar náist segir Ástráður:
„Ég vil nú helst alltaf vera bjartsýnn, en ég auðvitað kann á klukku og tíminn er að renna frá okkur.“