Hanna Katrín Friðriksson hyggst endurskoða alla umgjörð samkeppniseftirlits í landinu. Markmiðið sé að verja almenning og lítil fyrirtæki án þess að hefta um of umsvif stærri fyrirtækja að sögn ráðherra.
Athygli vakti í liðinni viku þegar ríkisstjórn verkamannaflokksins, undir stjórn Sir Keir Starmer, vék stjórnarformanni breska samkeppniseftirlitsins, Marcus Bokkerink frá störfum. Var það gert með þeim orðum að stofnunin hefði ekki lagt næga áherslu á samkeppnishæfni og hagvöxt í störfum sínum.
Varð þetta mál og fyrra hnútukast á Alþingi um vald- og áfrýjunarheimildir Samkeppniseftirlitsins íslenska að umræðuefni í nýjasta þætti Spursmála þar sem ráðherra var til svars.
Orðaskiptin má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan. Þau má einnig sjá í textanum hér að neðan:
Þú nefnir samkeppnismálin. Mér dettur í hug frétt frá Bretlandi í liðinni viku þar em Sir Keir Starmer var að láta æðsta yfirmann samkeppnismála í landinu taka pokann sinn. Sögðu að þeir væru ekki að taka nægilegt tillit til samkeppnishæfni og sveigjanleika atvinnulífsins til þess að búa til verðmæti. Finnst þér Samkeppniseftirlitið á Íslandi taka nægilegt tillit til þess þegar það er að stöða samruna fyrirtækja eða stöðva kaup á gjaldþrota majonesfyrirtækjum eða öðru slíku?
„Akkúrat. Ég held að stóra málið hér, nú þekki ég ekki þetta mál frá Bretlandi, á í raun fullt í fangi með Ísland þessa dagana.“
Já skiljanlega.
„Þá lít ég svo á að ef pottur er brotinn í þessum málum þá liggur hann hjá löggjafanum. Því við erum með samkeppnislöggjöf og það erum við sem berum ábyrgð á því að búa þannig um hnútana að regluverkið og lögin virki þannig að það sé verið að gæta hagsmuna smærri fyrirtækja og neytenda án þess að draga kraftinn úr þeim sem stærri eru. Og það er verkefnið og á litlum markaði eins og á Íslandi, þar sem myndast næstum því óhjákvæmilega fákeppnisaðstæður þá er þetta enn brýnna en ábyrgðin er alltaf hjá löggjafanum og framkvæmdavaldinu.“
Við erum með kerfi sem er með öflugt Samkeppniseftirlit sem vinnur sitt starf þrotlaust, svo erum við með áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem fyrirtæki geta skotið úrskurðum til ef þau eru ósátt við niðurstöður eftirlitsins. Kerfið hérna hefur verið þannig að í kjölfar úrskurðar þessa æðra dómsvalds eða áfrýjunardómsvalds þá geta menn líka farið fyrir héraðsdóm, Landsrétt og jafnvel Hæstarétt. Fyrirtækin kvarta sáran undan því að Samkeppniseftirlitið hóti slíku og segi að ef fyrirtækin felli sig ekki við niðurstöðu þess að þá dragi það þau í 10 ár fyrir dómstólana. Það var gerð tilraun til þess að skera á þetta fyrir nokkrum árum þannig að áfrýjunarleiðin væri í raun þessi áfrýjunarnefnd eða úrskurðarnefnd. Hver er þín skoðun á því, finnst þér eðlilegt að Samkeppniseftirlitið geti dregið fyrirtæki á asnaeyrunum í áratug?
„Nei, mér finnst það í sjálfu sér ekki eðlilegt. Ekki frekar en að mér finnst eðlilegt ef Samkeppniseftirlitið á Íslandi hefur mun lakari eftirlitsheimildir en eftirlitið í nágrannalöndunum. Þetta eru hlutir sem þarf að tala um. Og auðvitað hangir þetta tvennt saman.“
En eru þessar heimildir lakari?
„Já. Það urðu ákveðnar breytingar og við getum talað um breytingar á undanþáguákvæðum samkeppnislaganna, 15. greininni, þegar henni er breytt í Evrópu af ákveðnum ástæðum. Atvinnulífið vildi þetta, þá fylgdu með auknar eftirlitsheimildir annarsstaðar. Það gerði það ekki hér. Þess vegna talar þetta ekki nægilega vel saman. Þetta eru mál sem þarf að skoða og eru í mikilli skoðun. En ég þarf aðeins lengri tíma.“
En myndir þú ekki halda, eða ég myndi spyrja, væri ekki eðlilegt upp á samkeppnishæfnina og fyrirsjáanleikann að það sé áfrýjunarleið sem væri endanleg, frekar en að hægt væri að taka menn á fyrsta stig, annað stig, þriðja stig og svo fjórða.
„Ég skil þig. Aftur. Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða. Ég hef einsett mér að skoða þessi mál í heild. Því það er akkúrat þessi bútasaumur sem stendur kannski stóru myndinni fyrir þrifum.
Í báðar áttir?
„Já, algjörlega, ég tek alveg undir það.“
Ég hef margoft reynt að fá Pál Gunnar Pálsson hingað til viðtals við mig en hann talar bara við Ríkissjónvarpið. Það eru betri spurningar sem koma þaðan.
Viðtalið við Hönnu Katrínu Friðriksson má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: