Verkföll kennara hafin á ný

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkfallsaðgerðir kennara hefjast því á ný í dag og munu ná til fjórtán leikskóla og sjö grunnskóla.

Samningafundi kennara, ríkis og sveitarfélaga lauk nú um klukkan tíu í kvöld án þess að samningar næðust.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram inn­an­hústil­lögu í kjara­deilunni á fimmtudag, en hún fól meðal annars í sér að deila um jöfnun launa á milli markaða yrði leyst með virðismati á störfum kennara.

Stjórn Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga samþykkti til­lög­una á föstu­dag, en kenn­ar­ar féllust ekki á hana í þeirri mynd sem Ástráður lagði hana fram. Þeir gerðu kröfu um breyt­ing­ar á ákveðnum skil­mál­um, sem voru ræddar í gær og í dag. 

Samninganefndir ríkis og sveitarfélaga gátu ekki fallist á þær breytingar.

„Við erum búin að þrautkanna það, en það næst ekki saman,“ segir Ástráður.

Hann telur ekki ástæðu til að boða til annars fundar að öllu óbreyttu.

Líkt og áður sagði hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný í fyrramálið í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum víða um land og munu hafa áhrif á um 5.000 börn og fjölskyldur þeirra. Verkfallsaðgerðir í leikskólum eru ótímabundnar en tímabundnar í grunnskólum.

Þá hefur Félag framhaldsskólakennara gefið út að farið verði í atkvæðagreiðslu um ótímabundnar verkfallsaðgerðir í nokkrum framhaldsskólum strax í byrjun vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert