„Det er ingen skam å snu,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er hún ávarpaði þingmenn við setningu Alþingis nú fyrir skömmu.
Fór forsetinn þar með norskt orðatiltæki sem er notað í norskri fjallamennsku.
„Snúðu frekar við en að rata í ógöngur af þrjósku og einstrengingshætti,“ sagði forsetinn jafnframt þegar hún útskýrði orðatiltækið og brýndi fyrir þingmönnum að það væri engin skömm að skipta um skoðun svo lengi sem það væri gert að athuguðu máli.
Hún bað þingmenn um að missa ekki sjónar á því að þeir væru fyrst og fremst þingmenn með það sameiginlega markmið að vinna gagn fyrir þjóðina.
„Góðar hugmyndir koma ekki aðeins frá þeim sem sitja í meirihluta. Það er brýnt að vera vakandi fyrir þörfum tillögum og veita þeim brautargengi, sama hver ber þær fram.“
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, setti í dag 156. löggjafarþing Íslendinga.
Þingmenn urðu að dusta snjóinn af sparifötunum er þeir gengu fylktu liði inn í þinghúsið að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni.
Séra Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, þjónaði fyrir altari, ásamt Elínborgu Sturludóttur dómkirkjupresti. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna og prófastur í Suðurprófastsdæmi, prédikaði.
Halla hóf ávarp sitt á að óska nýrri ríkisstjórn og alþingismönnum velfarnaðar í störfum og þakka sömuleiðis þeim fyrir er skilja nú við þingið.
„Hver þingsetning er upphaf nýrrar vegferðar,“ sagði Halla. „Nýir þingmenn koma með ný viðhorf og endurnýja þann grundvöll hugmynda sem þingið starfar á. Á sama tíma má ekki vanmeta kunnáttu og reynslu hinna sem fyrir eru á þingi.“
Þá sagði hún þingmenn þurfa að vera skapandi og framsýnir, skynja æðaslátt samfélagsins og sjá hvert þróunin stefnir. Það geti þó reynst vandasamt. Þingmennska væri jafnvægislist sem krefjist bæði sköpunargáfu og formfestu, sem og hugrekkis til að hugsa vinnulagið upp á nýtt.
„Það er sannarlega vandaverk að setja lög um mál sem voru kannski ekki til fyrir fáeinum árum. Þar sem jafnvel þarf að búa til ný orð til að ná utan um fyrirbrigðin og læra að hugsa á nýjan hátt til að geta nálgast þennan nýja veruleika.“
Að loknu ávarpi bað forsetinn Þorgerði Katrínu Gunnardóttur utanríksráðherra að ganga til forsetastóls og stýra þingfundum þar til forseti Alþingis hefur verið kosinn.
Þorgerður Katrín er sá þingmaður sem hefur lengstu föstu þingsetuna að baki.