Kennarar mættu á fund ríkissáttasemjara um helgina með þær fréttir að þeir vissu að hægt væri að ganga enn lengra varðandi launahækkanir en fram kom í innanhústillögu sem Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram í kjaradeilunni á fimmtudag.
Þetta staðfestir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við mbl.is. Hún veit hins vegar ekki hvaðan kennarar fengu þær upplýsingar.
Bæði ríki og sveitarfélög samþykktu innanhústillöguna strax á föstudag en það gerðu kennarar ekki. Þeir mættu til fundar í Karphúsið á laugardag og kröfðust breytinga á ákveðnum skilmálum sem komu fram í innanhústillögunni.
„Kennarar komu með þær fréttir að þeir vissu að það væri mögulega hægt að ganga lengra varðandi launahækkanir, en það kom aldrei neitt gagntilboð frá þeim sem við gátum tekið afstöðu til,“ segir Heiða í samtali við mbl.is
„Þau höfnuðu þessari miðlunartillögu og komu í raun ekki með aðra tillögu. Þannig endaði þetta á sunnudagskvöldið, því miður. Því við vorum sannarlega tilbúin. Hefði komið önnur tillaga hefðum við gjarnan viljað fá að skoða hana og taka afstöðu til hennar.“
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að „einhver pólitískur hráskinnaleikur“ hefði farið í gang í viðræðunum á laugardag og sunnudag sem hefði endað með því að kennarar sáu að ekki fylgdi hugur máli í því sem forsætisráðherra og formaður SÍS höfðu komið fram með. Og fulltrúar þeirra við samningaborðið hefðu ekki verið tilbúnir að ganga að þeim leiðum sem kennarar bentu á. Því hefði ekki verið hægt að halda samtalinu áfram.
„Ef við hefðum fengið tillögu til baka hefðum við kallað saman stjórnarfund til að taka afstöðu til hennar,“ ítrekar Heiða.
Hún segist hafa heyrt ýmsar sögur um hvað hafi gerst.
„Ég held að það hafi ekki skipt máli þegar upp var staðið, því þau komu sér ekki saman um hvað þyrfti til, til að loka samningi,“ segir Heiða.
„Þau töldu einfaldlega að hægt væri að ganga lengra en voru ekki tilbúin að setja það niður á blað,“ bætir hún við.
Ríki og sveitarfélög hafi beðið eftir tillögu frá kennurum alla helgina, um hvernig mætti loka samningi, sem kom aldrei.
„Ég veit ekki við hverja þeir töluðu og hvað en það allavega skilaði því ekki að þau kæmu sér saman um það innan KÍ hvað það væri sem þyrfti til og við bíðum eftir því.“
Fram hefur komið af hálfu SÍS að kennarar hafi hafnað rúmlega 20 prósenta launahækkunum. Heiða segir að um hafi verið að ræða beinar launahækkanir, ekki ígildi hækkana.
„Það var það sem við vorum tilbúin að leggja inn í laun kennara áður en virðismatið færi í gang. Þannig að þetta voru launahækkanir á þessu fjögurra ára tímabili sem samningurinn gildir.“
Hvorki var krafa um að kennarar gæfu eftir einhver réttindi á móti eða breytingar á vinnufyrirkomulagi.
„Við hefðum verið opin fyrir því að fara í slíka skoðun, en það hefði þá verið í framhaldinu, og kannski hluti af virðismatinu sem hefði getað hækkað launin enn frekar.“