„Aðal málið er að það urðu engin slys á fólki“

Mikill vatnselgur myndaðist á Völlunum.
Mikill vatnselgur myndaðist á Völlunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 700 manns sinntu 300 útköllum um allt land í gær að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

„Nóttin var talsvert rólegri en gærkvöldið og fyrripart nætur. Flest verkefnin voru á höfuðborgarsvæðinu eða um 150,“ segir Jón Þór.

Liðlega 200 manns komu að verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í gær. „Þegar mest var voru úti liðlega 30 hópar sem voru að sinna verkefnum."

„Fyrst og fremst var vindurinn að komast undir klæðningar og bárujárn á þaki og veggjum og fletta þeim af,“ segir Jón Þór.

Svalalokanir og rúður  

„Við sáum litla geymsluskúra nánast splundrast og allt fauk úr þeim. Fellihýsi skemmdust mörg og svo voru margar stórar rúður að splundrast. Eins svalalokanir sem brotnuðu eða skemmdust á nokkrum stöðum. Þar sem vindurinn náði tangarhaldi var eins og hlutirnir gæfu bara eftir.“

Hann segir björgunarsveitarmenn reyna sitt besta á vettvangi til að festa hluti.

„Í slíkum tilvikum reyna menn að skorða hluti þannig að ekki verði frekara tjón. Í einhverjum tilvikum er hægt að festa klæðningar með nagla en í öðrum reyna menn bara að binda hlutina fast,“ segir Jón Þór.

Jón Þór Víglundsson - Upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Jón Þór Víglundsson - Upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ljósmynd/Landsbjörg

Gekk vel heilt yfir 

Hann segir að heilt yfir hafi allt farið vel.

„En aðalmálið er að það urðu engin slys á fólki og það er mest um vert. En þetta er eftirtektarvert veður og fer í sögubækurnar hversu víðfeðmt það er. Það var helst fyrir vestan sem fólk slapp,“ segir Jón Þór.

Að sögn hans var a.m.k eitt verkefni sem snéri að illa festu trampólíni. Liðlega 200 manns komu að verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í gær. „Þegar mest var voru úti liðlega 30 hópar sem voru að sinna verkefnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert