Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segir frétt af manndrápsmál í Neskaupstað meðal þess sem endurspeglar þann vanda sem blasir við þegar kemur að jaðarsettum einstaklingum í samfélaginu. Sjö ráðuneyti vinna að tillögum um öryggisvistun einstaklinga sem taldir eru hættulegir.
Það eru einstaklingar sem jafnvel hafa lokið fangelsisvist og/eða hafa ekki sakhæfi. Samhliða er vinna í gangi varðandi það að tryggja framtíðar húsnæði geðþjónustu Landspítala.
Alfreð Erling Þórðarson, sem ákærður er fyrir manndráp á hjónum í Neskaupstað, hefur um langa hríð átt við geðrænan vanda að etja og var metinn mögulega hættulegur sjálfum sér og öðrum í skýrslu geðlækna áður en voðaverkið var framið.
Forsætisráðuneytisins stýrir vinnu ráðuneytanna. Alma segir málið í forgangi og til marks um það var minnisblað um málefnið rætt á einum af fyrstu ríkisstjórnarfundum nýrrar ríkisstjórnar. Meðal annars er unnið að því að kortleggja þann hóp sem þarf á slíku sértæku úrræði að halda.
„Þetta er flókið mál, því það þarf að skilgreina hvernig þjónustu við getum veitt þessum einstaklingum en líka að skýra lögfræðileg atriði upp á það hvaða úrræðum er hægt að beita.“
„Þetta er hópur einstaklinga sem eru taldir hættulegir. Vinnan er í forgangi og það á bæði að vinna þetta hratt og það á að gera þetta allt vel,“ segir Alma.
„Þetta er mál sem snertir velferð og mannréttindi þessara einstaklinga og snertir öryggi borgaranna. En þetta eru kostnaðarsöm úrræði og með því að horfa á málin heildstætt þá má best tryggja hagkvæmnissjónarmið,“ segir Alma.