Ríkissáttasemjari óskaði eftir aðkomu skrifstofustjóra mennta- og barnamálaráðuneytis að kjaradeilu kennara um síðustu helgi.
Þetta segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is.
„Þegar sú beiðni var komin bar ég hana undir forsætisráðherra. Hann fór í karphúsið en hann hitti ekki kennara og svo það sé á hreinu, hvorki ég né nokkur á mínum vegum bauð kennurum á nokkrum tímapunkti tveggja prósenta hækkun eða sagði að hún væri einhvers staðar í pottinum – aldrei,“ segir Ásthildur.
Ítrekar hún að það verði að koma fram að ríkissáttasemjari hafi óskað eftir þeim fundi.
Spurð um ástæður þess segir hún að ríkissáttasemjari hafi sjálfsagt gert það því hann viti að skrifstofustjórinn Hafþór Einarsson sé mjög lausnamiðaður og flottur.
„Hann bauð honum. Hann bað hann að koma. Það var ekki eitthvað sem við buðum upp á eða neitt þess háttar, það verður að koma fram,“ segir Ásthildur.
Hver er hans aðkoma þá að deilunni?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Hann upplýsti sennilega sáttasemjara um það sem hann taldi að væri okkar sýn á málin. Hann hitti ekki kennara.“
Veit ekki hvaðan sögusagnirnar koma
Var hann með bréf til kennara?
„Nei, ég skil ekki hvaðan þessar sögusagnir eru komnar. Ég hef bara ekki hugmynd um það og skil ekki hvaðan þær eru komnar. Mér finnst þetta með ólíkindum það sem verið er að spinna.
Menntamálaráðuneytið fór yfir hvað við gætum hugsanlega gert og við leituðum lausna en við bárum þær aldrei upp við kennara, töluðum aldrei við kennara, buðum kennurum aldrei neitt og lofuðum þeim aldrei neinu,“ segir ráðherra.
Áttir þú sjálf einhver samtöl við formann Kennarasambandsins um einhverjar hækkanir?
„Nei, ekki neitt og ég veit að ekkert af mínu fólki átti í neinum samskiptum sem snerust um nokkuð þessu líkt.“
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að kennarar hefðu mætt í Karphúsið um síðustu helgi með þær fréttir að þeir hefðu vissu um að hægt væri að bjóða þeim meiri hækkanir en voru á borðinu. Hún sagðist hins vegar ekki vita hvaðan þeir hefðu fengið þær upplýsingar
„Það kom ekki frá okkur, ég hef ekki hugmynd um hvaðan það kom," segir Ásthildur.
Líkt og fram hefur komið óskaði stjórnarandstaðan í gær eftir svörum frá forsætisráðherra vegna meintra afskipta Ásthildar af kjaradeilu kennara.
Stjórnarandstaðan spurði hvort það væri rétt, sem fregnir hermdu, að ráðherra eða starfsmaður á hennar vegum hefði boðið kennurum tveggja prósenta launahækkun til viðbótar við það sem var á borðinu.
„Þú getur ekki ímyndað þér hvaða þessi saga kemur? Hvort einhver samtöl hafi átt sér stað þar sem misskilningur gæti hafa orðið?“
„Alls ekki, ég skil ekkert, og ég veit að ekkert af mínu fólki átti í neinum samskiptum sem snérust um nokkuð þessu líkt,“ segir Ásthildur.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, talaði um það eftir síðustu helgi að samningar hefðu ekki náðst út af „pólitískum hráskinnaleik“, heldurðu að aðkoma Hafþórs á þessum tímapunkti hafi mögulega haft einhver áhrif?
„Ég held að pólitískur hráskinnaleikur sé ekki frá okkur. Hann er alls ekki frá okkur. Við vonumst til að þetta verkfall leysist og ríkisstjórnin sýndi kennurum aðgerðir til að liðka fyrir. Þær komu úr menntamálaráðuneytinu, þær voru faglegar og snérust ekki um laun.“
Þú ert kennari sjálf, þig hefur ekkert klæjað í fingurna að stíga inn í þetta?
„Auðvitað væri gaman að geta stigið inn í þetta og reddað málunum, en nei ég veit hvað ég og má og hvað ég má ekki og það kom aldrei til greina að gera neitt svoleiðis.“
Þannig það hafa engin samtöl átt sér stað sem gætu hafa ýtt undir þessar hugmyndir kennara?
„Ég hef ekki verið í neinum samtölum við kennaraforystuna, bara í marga daga fyrir þetta allt saman. Ég hef einu sinni hitt Magnús eftir að ég varð ráðherra og það var á fyrstu dögunum og það var bara eðlileg kurteisisheimsókn. Ekkert annað. Þessum sögusögnum verður bara að linna. Þetta er ekki satt. Við höfum aldrei boðið kennurum nokkurn skapaðan hlut, annað en að við leituðum faglegra leiða um eitthvað sem þeim myndi þykja aðlaðandi.“
Fréttin hefur verið uppfærð.