„Það er búið að þvarga hérna fram og til baka“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Árni Sæberg

Reynt hefur verið að nálgast helstu þrætuepli í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga frá „þúsund mismunandi sjónarhornum“ síðustu daga, án árangurs, að sögn ríkissáttasemjara.

Deiluaðilar ætla að gefa sér tíma um helgina til að fara yfir ákveðnar hugmyndir sem hann lagði til.

Fundi í kjaradeilunni lauk um fimmleytið í dag og nýr fundur hefur verið boðaður á mánudagsmorgun klukkan 9. Ekkert verður fundað um helgina.

„Staðan í málinu er svona, það er búið að þvarga hérna fram og til baka um sömu þrjú eða fjögur atriði sem ber á milli. Það er búið að reyna að nálgast það mál frá þúsund mismunandi sjónarhornum og við höfum ekki náð að finna lausn á því,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Fara yfir hugmyndir um helgina

Hann lagði til ákveðnar hugmyndir sem deiluaðilar ætla að gefa sér tíma til að fara yfir um helgina.

„Við reifuðum ákveðnar hugmyndir um hvernig mætti leysa þetta og lögðum inn til aðilanna að hugsa það um helgina. Aðilar ákváðu að það væri nauðsynlegt að þeir tækju sér umhugsunarfrest um það fram á mánudag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert