Í dagbók lögreglu kemur fram að lögreglu hafi borist símtal frá móður sem segir þrjá drengi undir lögæðisaldri hafa ráðist á son sinn, sem einnig er undir lögaldri, í Mjódd í Breiðholti. Þar hafi þeir veist að honum með hnefahöggum og reynt að taka af honum úlpuna.
Þeim varð hins vegar ekki kápan úr því klæðinu og drengurinn sem ráðist var á hélt úlpunni.
Drengurinn er sagður með áverka í andliti. Lögregla hafði uppi á einum þeirra sem réðst á drenginn. Málið er í rannsókn.
Eins segir frá því að maður hafi verið handtekinn eftir að hann barði í lögreglubíl, hrópaði fúkyrðum að lögreglumönnum og gaf þeim óviðeigandi meri með þumli og löngutöng.
Við öryggisleit fannst LSD á manninum en honum var sleppt eftir skýrslustöku.
Þá segir frá tveimur mönnum í framsæti bíls sem skiptu um sæti eftir að lögregla stöðvaði þá. Báðir eru sagðir hafa virst vera undir áhrifum fíkniefna og því voru þeir báðir handteknir grunaðir um aksturinn. Báðir voru sviptir ökuréttindum þar sem hnífur og meint fíkniefni fundust á öðrum þeirra. Þeir voru vistaðir í fangaklefa við rannsókn málsins.