Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir niðurstöðu félagsdóms, um að verkföll kennara í nær öllum grunnskólum og leikskólum séu ólögmæt, koma á óvart.
„Við erum að skoða málið en þetta kom á óvart,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.
Verkfall KÍ í Snæfellsbæ er ekki dæmt ólögmætt þar sem þar er um að ræða eina leikskólann í sveitarfélaginu.
Spurður hvort gera megi ráð fyrir allsherjarverkföllum í grunn- og leikskólum á næstunni kveðst Magnús ekki vera kominn svo langt.
Félagsdómur setji þó skýrt fram í dómi sínum að verkfall sé heimilt nái það yfir allar stofnanir tiltekins sveitarfélags líkt og í Snæfellsbæ.
Hann segist munu funda með sínu fólki í kvöld en eigi eftir að fara yfir dómsorðið með lögfræðingum sambandsins.
„Ég hef sagt það áður að kjaradeilan verði ekki leyst í dómssölum landsins. Þannig við verðum að reyna að halda áfram að ná samningum,“ segir Magnús.
Hann segir aðalatriðið núna að koma skilaboðunum áleiðis til félagsmanna KÍ og búa það undir að snúa aftur til vinnu með skömmum fyrirvara. Það sé vissulega ekki góð staða að vera kallaður inn úr verkfalli með þessum hætti.
„Það er alla vega ljóst mál að fólk mætir í vinnuna á morgun í 21 skóla sem voru í verkfalli.“