Borga milljónir í leigu í staðinn fyrir 750 þúsund

Barna- og fjölskyldustofa greiðir nú rúmar tvær og hálfa milljón króna á mánuði í leigu fyrir húsnæði undir meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, í staðinn fyrir 750 þúsund krónur, sem stóð til að greiða.

Ástæðan er sú að húsnæðið sem Barna- og fjölskyldustofa tók á leigu undir starfsemina síðastliðið haust uppfyllir ekki kröfur um brunavarnir, þrátt fyrir úrbætur, og því varð að leigja annað húsnæði undir starfsemina.

Stofnunin greiðir því leigu af húsnæði á tveimur stöðum, annars vegar til SÁÁ og hins vegar til Farsældartúns, þrátt fyrir að aðeins sé starfsemi á öðrum staðnum. Hitt húsnæðið stendur autt.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, þóttist opna meðferðarheimilið Blönduhlíð í Farsældartúni í Mosfellsbæ í lok nóvember síðastliðnum, fjórum dögum fyrir kosningar. Þá átti eftir að gera brunaúttekt á húsnæðinu og starfsleyfi hafði ekki fengist.

Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, við opnun Blönduhlíðar …
Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, við opnun Blönduhlíðar í nóvember. mbl.is/Karítas

Enn óvissa um framtíðarhúsnæði

Það lá sem sagt fyrir að húsnæðið var ekki tilbúið undir starfsemina þegar ráðherra opnaði meðferðarheimilið að viðstöddum fjölmiðlum. Þá höfðu engu að síður töluverðar framkvæmdir átt sér stað og breytingar verið gerðar svo hægt væri að nýta Blönduhlíð undir starfsemi meðferðarheimilis. En það dugði ekki til.

Enn er engin starfsemi í Blönduhlíð og sagði Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, í samtali við mbl.is í síðustu viku að óvíst væri hvort Blönduhlíð yrði nýtt undir meðferðarheimili. Ráðast þyrfti í miklar breytingar til viðbótar svo það gæti orðið.

Til að bregðast við þessari stöðu hefur Barna- og fjölskyldustofa samið við SÁÁ um leigu á húsnæði á Vogi undir meðferðarheimilið. Leigusamningurinn er tímabundinn til áramóta og hljóðar leigan upp á 1,8 milljónir króna á mánuði. Enn ríkir óvissa um hvert starfsemi meðferðarheimilisins flyst um áramótin.

Á sama tíma greiðir Barna- og fjölskyldustofa leigu til Farsældartúns, sem á húsnæðið Blönduhlíð, sem og lóðina sem það stendur á. Samkvæmt opnum reikningum ríkisins er leigan um 750 þúsund krónur á mánuði og hefur sú upphæð verið greidd mánaðarlega frá því í ágúst á síðasta ári.

Þarf að klára kostnaðarmat

Funi segir í samtali við mbl.is að gert sé ráð fyrir að einhver starfsemi á vegum Barna- og fjölskyldustofu verði í Blönduhlíð á endanum. Hvort það verður meðferðarheimili eða eitthvað annað á hins vegar eftir að koma í ljós.

„Það sem verið er að bíða eftir núna er nákvæmlega hvort við séum að fara í framkvæmdirnar, það þarf að klára að kostnaðarmeta þær, svo bara hvaða starfsemi fer í þetta hús,“ segir Funi.

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu.
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu. mbl.is/Árni Sæberg

Staðan slæm vegna óvæntra atvika

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra, segist hafa fengið þær upplýsingar að það hafi komið öllum á óvart að kröfur um brunavarnir væru ekki uppfylltar í Blönduhlíð.

„Samkvæmt mínum upplýsingum kom það fólki á óvart að brunavarnir væru ekki nægar. En það kom sem sagt í ljós að húsnæðið uppfyllti ekki kröfur um brunavarnir og erfitt var að aðlaga húsnæðið að þessum ströngu kröfum. Því var lagt kapp á að finna nýtt húsnæði,“ segir Ásthildur í samtali við mbl.is.

Hún segir núverandi ríkisstjórn ekki taka við góðu búi þegar kemur að málefnum barna með fjölþættan vanda, en það komi meðal annars til vegna ýmissa óvæntra atvika á síðasta ári.

Það varð til að mynda að loka meðferðarheimilinu Lækjarbakka á Suðurlandi vegna myglu, en síðan þá hefur ekki verið í boði langtímameðferð fyrir drengi. Þá varð bruni í október á meðferðarheimilinu Stuðlum, þar sem 17 ára piltur lét lífið. Álma fyrir neyðarvistun gjöreyðilagðist í brunanum.

Ekki hefur verið hægt að bjóða upp á hefðbundið meðferðarúrræði fyrir börn frá þeim tíma, en óskemmt rými á Stuðlum hefur að mestu verið nýtt undir afplánun og gæsluvarðhald barna og unglinga. Þar hefur einnig verið langtímameðferð fyrir börn með þyngri vanda.

Meðferðarheimilið sem opna átti í Blönduhlíð í desember verður svo opnað á Vogi í þessari viku, þegar tekið verður á móti fyrstu skjólstæðingunum.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Karítas

Forgangsmál að tryggja meðferðarúrræði

„Staðan í þessum málum er alls ekki góð. Þessi ríkisstjórn er með það sem forgangsmál að tryggja aðgang að meðferðarúrræðum, þannig að þau sem þurfi á að halda fái rétta þjónustu á réttum tíma. Og stytta biðlista,“ segir Ásthildur.

„Þannig að það er bara verið að vinna í þessu eins og hægt er,“ bætir hún við.

Ásthildur lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku og átti fund með umboðsmanni barna til að ræða um málaflokkinn.

„Ég lagði fram minnisblað um stöðu mála og hvað við sæjum fyrir okkur að gera og hvað væri til lausna, á ríkisstjórnarfundi síðasta þriðjudag.“

Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu í Farsældartúni en þar á að rísa byggð sem á að hýsa stofnanir og fólk sem sem veitir börnum og ungmennum með fjölþættan vanda þjónustu, sem og fjölskyldum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert