„Verðum að vera tilbúin til að takast á við gos í þessum mánuði“

Síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni lauk 9. desember.
Síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni lauk 9. desember. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir líklegt að það dragi til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni í þessum mánuði.

Hann segir að skjálftavirknin sé minni en hún hafi verið fyrir síðustu atburði en fjórir smáskjálftar mældust til að mynda á svæðinu síðastliðna nótt.

Benedikt segir að landrisið sé farið að nálgast rúmmálið sem fór úr kerfinu í síðasta gosi en sjöunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023 lauk 9. desember.

„Landrisið heldur áfram nokkuð stöðugt þó að vissulega hafi hægst á hraðanum. Það er ekkert að stoppa og við erum að komast inn á þau mörk að getum átt von á að það geti eitthvað gerst hvenær sem er. Við þurfum alla vega að vera á tánum og ég held að við verðum að vera tilbúin til að takast á við gos í þessum mánuði en við gætum líka þurft að búa við langt óvissustig,“ segir Benedikt við mbl.is.

Lögregluyfirvöld lýstu yfir hættustigi almannavarna vegna aukinnar hættu á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni þann 30. janúar. Spurður hvort menn hafi verið of fljótir á sér að lýsa yfir hættustigi á þeim tímapunkti segir hann:

„Nei, ég held að það hafi verið vit í neinu öðru. Á þeim tímapunkti vorum við komin að neðri mörkum á líkanreikningum og það var snarvitlaust veður í kortunum. Það hefði ekki verið gott að fá gos við slíkar aðstæður. Þótt líkurnar hafi ekki verið miklar þá hefði það verið mjög krefjandi að sjá byrjun á gosi og að rýma svæðið. Sem betur fer gerðist ekkert,“ segir Benedikt.

Skjálftavirkni nálægt Krýsuvík

Benedikt segir að töluverð skjálftavirkni hafi verið viðvarandi nálægt Krýsuvík, við Fagradalsfjall og Trölladyngju.

„Það er kannski aðeins of snemmt að segja að skjálftavirknin sé vaxandi en það hefur verið talsverð skjálftavirkni á þessu svæði milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert