Páll Steingrímsson segir að fjölmiðlar geri hreint fyrir sínum dyrum í hinu svokallaða byrlunarmáli. Tveir fyrrum sakborningar í málinu eru nú starfsmenn Alþingis og nánir samverkamenn forsætisráðherra.
Hann er spurður út í það hvernig honum sé innanbrjósts í ljósi þessa en Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á sama miðli, höfðu báðir stöðu sakbornings í málinu þar sem rannsakað var hvort Páli hefði verið byrlað ólyfjan í því skyni að afrita gögn af síma hans og hvort viðkvæmum, persónulegum gögnum úr símanum hefði verið komið á framfæri við þriðja aðila.
Málið var fellt niður og sagði í yfirlýsingu lögreglu að það væri meðal annars vegna tafa sem hlotist hefðu af ágreiningi við sakborninga „sem töldu sig ekki bera sömu skyldu og aðrir til að gefa skýrslu hjá lögreglu vegna stöðu sinnar sem blaðamenn.“
Var fjallað um þann þátt málsins á þremur dómstigum, auk þess sem gerðar voru vanhæfiskröfur á starfsmenn lögregluembættisins sem í hlut átti sem fjallað var um á tveimur dómstigum.
Þá hefur einnig verið upplýst að Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri hafi reynst lögregluyfirvöldum óþægur ljár í þúfu og dregið svör við mikilvægum spurningum er vörðuðu meinta afritun síma Páls Steingrímssonar, örfáum vikum áður en fyrningarfrestir í málinu liðu.
Segir Páll undarlegt að Þórður Snær Júlíusson sé kominn í það starf sem hann gegnir nú, sem framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, einkum vegna þess að hann hafi lagt í vana sinn að hundelta menn sem hafi misstigið sig í íslensku samfélagi.
Minnir hann á að Þórður Snær hafi náð kjöri sem alþingismaður en sagt af sér í ljósi þess að gamall ósómi honum tengdur kom upp á yfirborðið í aðdraganda síðustu kosninga. Þar hafi Þórður Snær meðal annars sagt öðrum blaðamönnum ósatt og jafnvel siðanefnd Blaðamannafélagsins. Varðaði málið skrif Þórðar Snæs á bloggsíðu þar sem hann kom fram undir dulnefninu „Þýska stálið.“
Fullyrðir Páll meðal annars að Þórður Snær hafi farið á eftir fyrrum starfsmanni Samherja sem réði sig til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það hafi hann gert, jafnvel þótt viðkomandi hafi ekki haft neina stöðu í umræddu máli eða öðrum. Hún hafi einfaldlega unnið sér það til saka að vinna fyrir útgerðarfélagið sem Þórður Snær fjallaði mikið um á sínum tíma og fór raunar mikinn í þeirri sömu umfjöllun.
Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
Þú ert að íhuga það núna að fara í einkamál. Nú ber svo við að í þessari viku var staðfest að annarra tveggja sakborninga í þessu máli, sem var fellt niður, er orðinn starfsmaður Alþingis. Þeir eru tveir reyndar, starfsmenn Alþingis og nánir og nánustu samverkamenn nýs forsætisráðherra. Hvernig tilfinning er það eftir að hafa átt í höggi við þetta fólk?
„Mér finnst dálítið sérstakt að maður eins og Þórður Snær, sem hefur nánast farið eftir hverjum einasta manni sem hefur eitthvað misstigið sig, að hann sé kominn í þessa stöðu. Hann eltir nú þá uppi Ara Edwald, Þórð Má og Hreggvið Jónsson. Það var forsíðumynd af því þegar þeir voru hraktir úr sínum störfum. Og fyrir hvað? Það lítur út fyrir að það hafi verið eintómar lygar. Var ekki verið að vitna í upptöku sem Logi Bergmann tók við Arnar Grant. Það lítur út fyrir að þar eru bara hreinar lygar á ferðinni. Það vill nú svo til að ég kannast bæði við Hreggvið og Ara Edwald og ég tel að þeir hafi þarna verið teknir af lífi að ósekju. Þarna hafi bara þessi manneskja, hún hafi bara verið í sérstöku agenda og fengið platform hjá þeim hjá Stundinni eða Heimildinni þegar hún er í viðtali hjá Eddu Falak.“
En hann er orðinn framkvæmdastjóri þingflokks og hefur fengið Blaðamannaverðlaun fyrir þitt mál. Getur hann ekki bara sofnað sæll á nóttunni fyrir það sem hann hefur lagt að mörkum?
„Ef hann sofnar sæll þá er maðurinn algjör siðblindingi. Ég hef ekki trú á því að Þórður Snær, hafi hann einhverja samvisku, að hann sofi vært. Og sérðu það til dæmis að hann er mjög upptekinn af því að vera verðlaunablaðamaður. Hann hefur ekki mætt held ég í eina einustu yfirheyrslu án þess að geta þess. Og meira að segja, honum fannst meira að segja ástæða til þess þegar hann kærði mig fyrir hótanir, þegar þeir smíðuðu úr næstum tveggja ára Facebook-status, og email sem ég sendi á Stefán Eiríksson, já mér finnst mjög skrítið hvernig hann sér heiminn. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það.
Hann eltir menn uppi og ég veit alveg dæmi þess að einn starfsmaður Samherja fór að vinna hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þeir djöfluðust þar í öllum stjórnarmönnum. Hún var ekki með stöðu í neinu máli, hún hafði bara unnið hjá Samherja þannig að þeim þótti ástæða til að elta hana uppi. Og þeir eltu þessa þrjá menn uppi, gjörsamlega. Þórður Snær státar sig af því að hafa hringt í alla stjórnarmenn tveggja stærstu lífeyrissjóðanna til að koma í veg fyrir að hann fengi stjórnarsæti í Festi. En svo finnst honum, sér hann ekkert athugavert við það að hann gerist þingmaður. Hann hröklaðist úr því starfi fyrir gömul leyndarmál sem hann hélt hann væri búinn að fela. Hann reyndar reyndi að eyða þessu út og þar laug hann nú í kollega sína á sínum tíma. Hann laug því klárlega þegar málið með Rannveigu Rist kom upp að hann eigi ekki aðild að þessu og hann meðal annars lýgur að siðanefnd Blaðamannafélagsins. Þessi hópur er ekkert feiminn við að ljúga. Við skulum hafa það alveg á hreinu og tala bara hreina íslensku. Þau eru ekkert feimin við að ljúga að almenningi og mér finnst þau hreinlega vera að misnota það traust sem við höfum til blaðamanna og eigum að hafa til blaðamanna, við eigum að hafa traust til fjölmiðla og við eigum að hafa traust til fjölmiðla. En eins og staðan er í dag þá sé ég ekki hvers vegna við eigum að sóa skattfé í fjölmiðla. Mér finnst að fjölmiðlar verði til dæmis að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.“
Viðtalið við Pál Steingrímsson má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan: