Kjaraviðræðum sem vísað hefur verið til embættis ríkissáttasemjara hefur fjölgað nokkuð að undanförnu. Í gær voru alls 17 mál sem vísað hefur verið til sáttameðferðar í vinnslu hjá ríkissáttasemjara.
Nokkur mál hafa verið hjá ríkissáttasemjara um langa hríð, þar á meðal eru kennaradeilurnar, viðræður VM og SA vegna fyrirtækja í laxeldi og tengdum greinum og viðræður Félags prófessora og samninganefndar ríkisins.
Ekki hefur verið boðað til sáttafundar í kjaradeilum Eflingar og Hlífar við Sorpu en viðræðunum var vísað til ríkissáttasemjara á dögunum.
Á morgun er fyrirhugaður sáttafundur í deilum verkalýðsfélaga og SA fyrir hönd Norðuráls og Elkem á Grundartanga vegna endurnýjunar kjarasamninga starfsmanna hjá verksmiðjunum.
Meðal annarra mála sem vísað hefur verið til ríkissáttasemjara eru viðræður Íslenska flugstéttafélagsins og SA vegna Play og viðræður Félags íslenskra leikara og SA vegna Leikfélags Reykjavíkur.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag