Myndskeið: Allir viðbragðsaðilar Akureyrar keyrðu brautina

Í gær var haldið upp á 112-daginn víða um land. Markmið dagsins er að minna á þetta mikilvæga neyðarnúmer ásamt því að þakka neyðarvörðum og öðrum viðbragðsaðilum fyrir þeirra ómetanlegu störf.

Dagsetningin 11.2. er táknræn og hjálpar landsmönnum að muna þetta lífsnauðsynlega númer, að því er segir í tilkynningu frá Neyðarlínunni.

„Börn gegna lykilhlutverki í forvörnum og öryggismálum með því að vera góðar fyrirmyndir í daglegu lífi, til dæmis með því að nota endurskinsmerki, hjólahjálm og spenna bílbelti.

Þau minna einnig fullorðna á að vera ekki í símanum við akstur og eru frábærir innhringjendur þegar þau þurfa að hringja í Neyðarlínuna. Í leik- og grunnskólum landsins eru börn einnig aðstoðarmenn slökkviliðs, þar sem þau læra mikilvæga þætti í eldvörnum og öryggi,“ sem segir í tilkynningunni.

Þema 112 dagsins árið 2025 var „Börn og öryggi“.

Margt var um manninn í Skógarhlíð í gær og kynntu …
Margt var um manninn í Skógarhlíð í gær og kynntu ungir sem aldnir sér starfsemi viðbragðsaðila. mbl.is/Eyþór

Viðbragðsaðilar óku um bæinn

Boðið var upp á fjölbreytta viðburði meðal annars á Akranesi, Blönduósi, Dalvík, Fjallabyggð og Reykjanesbæ.

Á Akureyri óku viðbragðsaðilar um bæinn með forgangsljós eins og sjá má í myndskeiðinu í spilaranum að ofan. Á höfuðborgarsvæðinu var 112-dagurinn haldinn í bílasal Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu við Skógarhlíð en þar kynntu viðbragðsaðilar starf sitt og veittu fræðslu um öryggi og viðbrögð við neyðartilvikum.

Viðbragðsaðilar á Akureyri stilla sér upp fyrir myndatöku við slökkvistöð …
Viðbragðsaðilar á Akureyri stilla sér upp fyrir myndatöku við slökkvistöð bæjarins. mbl.is/Þorgeir

Þrír veittu lífsbjörg

Rauði krossinn á Íslandi veitti þá skyndihjálparmanneskjum ársins viðurkenningu en þrír einstaklingar sem saman björguðu lífi urðu fyrir valinu.

Hrafnkell Reynisson hneig niður á bílastæði og fór í hjartastopp. Guðrún Narfadóttir átti leið fram hjá, kallaði eftir aðstoð og hóf strax hjartahnoð. Hinrik Þráinn Örnólfsson og Elín Ragnarsdóttir, sem starfa í nærliggjandi húsi, heyrðu köll Guðrúnar og hringdu í 112.

Aðalheiður Sigrúnardóttir neyðarvörður tók við símtalinu og með samstilltu átaki tókst þremenningunum að vinna dýrmætan tíma þar til viðbragðsaðilar komu á staðinn og gáfu rafstuð.

Í dag er Hrafnkell við góða heilsu, m.a. þökk sé skjótum viðbrögðum þeirra Guðrúnar, Hinriks og Elínar, sem eru skyndihjálparmanneskjur ársins 2024.

Frá afhendingu viðurkenninga til skyndihjálparmanneskja ársins 2024 í slökkvistöðinni við …
Frá afhendingu viðurkenninga til skyndihjálparmanneskja ársins 2024 í slökkvistöðinni við Skógarhlíð í Reykjavík í gær. mbl.is/Eyþór

Dagskrá fram haldið víða

Dagskránni verður víða fram haldið en á Akureyri verður meðal annars sameiginleg dagskrá viðbragðsaðila við Glerártorg, sunnudaginn 16. febrúar.

Neyðarlínan hvetur landsmenn til að fylgjast með samfélagsmiðlum og héraðsmiðlum og taka virkan þátt í 112-deginum.

Þegar ungir drengir fá að sitja fyrir við slökkviliðsbíl er …
Þegar ungir drengir fá að sitja fyrir við slökkviliðsbíl er eins gott að mamma taki góða mynd. mbl.is/Eyþór
Þessi ungi maður fékk að setjast á lögreglubifhjól.
Þessi ungi maður fékk að setjast á lögreglubifhjól. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert