Þorvaldur Þórðarson prófessor telur að með hverjum deginum fari líkurnar dvínandi á öðru eldgosi við Sundhnúkagígaröðina.
Raunar telur hann líklegra að næsta gos verði í öðru af tveimur öðrum eldstöðvakerfum.
Bendir hann þá á Krýsuvíkurkerfið annars vegar og Reykjanesið hins vegar, yst á Reykjanesskaganum.
„Það er búin að vera skjálftavirkni og ákveðin teikn um kvikusöfnun þarna út af Reykjanesinu,“ segir hann.
„En mér finnst nú líklegast, miðað við það sem hefur verið að gerast og hvar hefur verið mesta virknin, að eitthvað verði í Krýsuvík eða á Reykjanesinu.“
Að mati Þorvaldar er líklegt að næsta gos verði svipað þeim að stærð sem á undan hafa orðið.
Ef næsta gos verði í Krýsuvíkurkerfinu eða á Reykjanesi, segir hann að nokkur ár geti liðið þangað til. Um sé að ræða önnur eldstöðvakerfi sem ekki séu að fullu komin í gang enn þá.
„Við fáum smá pásu,“ bætir hann við.
„Það gæti farið í gang eftir tvö, þrjú ár eða tvo, þrjá áratugi. En þau fara í gang á einhverjum tímapunkti. Við erum í þessu eldgosatímabili og við fáum fleiri svona umbrot á Reykjanesskaganum á næstu árhundruðum og það geta verið ár eða áratugir á milli hverra umbrota,“ segir Þorvaldur.
Minnir hann á að gostímabil á Reykjanesskaganum verði á um það bil átta hundruð ára fresti.
Spurður um virkni á Sundhnúkagígaröðinni segir Þorvaldur hafa dregið verulega úr gliðnun og landrisi á svæðinu, vegna þess að dregið hafi úr innflæði kviku. Ef innflæði kviku haldi áfram að minnka þá hætti virknin á endanum.
„Þetta er eins og að skrúfa fyrir krana og við erum komin ansi langt með að skrúfa fyrir kranann núna, held ég,“ segir hann.
„Ég var að frétta af því núna að borhola í Vatnsleysuströnd, sem hefur verið að gefa af sér heitt vatn og gas – hún hætti því í morgun. Það er búið að loka fyrir aðgengi að heita vatninu að holunni. Það gæti verið ein vísbendingin um það að þetta sé komið á lokastig.“
Hann telur þó áfram möguleika á gosi við Sundhnúkagígaröðina.
„En það yrði þá sennilega lokagosið.“
Er þessi bið eftir öðru gosi óvenjulega löng?
„Þetta er nú með lengri gostímabilum sem við höfum haft og landrisið á töluvert í það að ná þeirri stöðu sem það náði fyrir síðasta gos. Gróft á litið vantar svona 25% upp á að landrisið núna nái sömu stöðu og fyrir síðasta gos,“ svarar Þorvaldur.
Miðað við stöðuna í dag næði landrisið því marki fyrstu eða aðra vikuna í mars, þó Þorvaldur telji ólíklegt að landris haldi áfram.
„Það eru svona helmingslíkur á því og með hverjum deginum finnst mér líkurnar aukast á að það verði ekki gos.“