„Við fögnum ábendingum um hvað megi betur fara í könnunum okkar og bregðumst við þeim ef við teljum þær vera réttmætar,“ segir Kristín Una Friðjónsdóttir framkvæmdastjóri Skólapúlsins, sem gerir kannanir fyrir íslenska skólakerfið.
Í nýlegri könnun fengu foreldrar leikskólabarna m.a. þá spurningu hvernig barn þeirra skilgreindi kyn sitt, sem stelpu, strák eða „með öðrum hætti“. Skapaðist umræða um könnunina á Facebook-hópnum Pabbatips. Þar lýsti m.a. einn faðir yfir undrun sinni á spurningunni, ekki síst í ljósi þess að barn hans væri tveggja ára gamalt.
„Þessi tiltekna spurning er ný í foreldrakönnun leikskóla í ár því hingað til höfum við kallað eftir upplýsingum um kyn barna frá leikskólunum sjálfum. En við fengum ábendingu frá foreldrum vegna orðalagsins og þar sem við töldum ábendingarnar réttmætar ákváðum við að breyta orðalaginu,“ segir Kristín en spurningin er núna: „Hvert er kyn barnsins? a) stelpa, b) strákur eða c) annað.“
Kristín segir að í gerð kannana fyrir skólakerfið sé leitast við að starfa eftir hugarfari inngildingar, þ.e. að allir geti fundið svar fyrir sitt barn eða sig í könnununum. „Við höfum á undanförnum árum fengið ábendingar um að huga að inngildandi orðalagi frá okkar viðskiptavinum, t.d. í foreldrakönnunum leik- og grunnskóla, þannig að orðalagið henti svarendum af öllum kynjum. Það má segja að upprunalegt orðfæri í spurningunni sem þú hefur samband við okkur út af hafi verið innblásið af þeirri viðleitni.“
„Það er ekkert óvanalegt að börn á leikskóla velti fyrir sér kyni sínu,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnisstýra hjá Barnaheillum, þegar hún er spurð hvort leikskólabörn séu ekki of ung til að hægt sé að meta frávik frá því að upplifa sig sem annaðhvort strák eða stelpu. „Við erum með lög í landinu um kynrænt sjálfræði, sem segja að hver og ein manneskja hefur rétt til að skilgreina sitt kyn, líka börn, í samráði við foreldra,“ segir Kolbrún og bætir við að Skólapúlsinn sé að fylgja lögum sem eiga að tryggja inngildingu.
„Það eru alltaf einhver börn sem við köllum stundum kynjakönnuði, sem eru að fikra sig áfram og finna hver þau eru. Í þessu tilfelli eru foreldrar að svara fyrir sitt barn og þau þekkja barnið sitt auðvitað best, en ekki eitthvert fólk úti í bæ. Ef þau telja að sitt barn hafi fæðst í röngum líkama eða falli utan kynjatvíhyggjunnar, þá hafa þau þann möguleika að merkja við þennan þriðja möguleika. Öðrum kemur það í raun ekki við.“
Aðspurð segir Kolbrún málið ekki snúast um það að stelpur geti haft gaman af strákaleikjum og strákar af stelpuleikjum.
„Þetta snýst um upplifun barna af því hver þau eru. Það eru þessar innri tilfinningar og sjálfsmynd. Þau sem hafa ekki reynsluna af þessu eiga erfitt með að skilja þetta. Vissulega á þetta við um lítinn hóp barna, en það getur skipt þau miklu máli að finna að það sé gert ráð fyrir þeim líka. Við getum borið virðingu fyrir rétti einstaklingsins til sinnar upplifunar, þótt við skiljum ekki hvernig er að vera í þeirra sporum.“
Kolbrún segir umræðuna um trans fólk hafa verið á neikvæðum nótum um nokkurt skeið og minni um margt á umræðuna um samkynhneigða á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
„Á leikskólum er hvergi verið að innprenta eitt eða neitt hjá börnum, heldur er verið að viðurkenna börnin eins og þau eru. Þó að barn ákveði á leikskólaaldri að ganga í kjól, safna hári eða óska eftir að vera kallað öðru nafni, þá er það ekki neitt inngrip sem er óafturkræft. Það er ekki verið að gefa lyf eða framkvæma aðgerðir og það er alveg hættulaust að gefa börnum frelsi til að vera kynjakönnuðir.“